Myndir ársins er árleg sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands. Á sýningunni í ár eru 83 myndir frá liðnu ári sem valdar voru af óháðri dómnefnd úr 904 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara. Myndunum er skipt í 7 flokka sem eru fréttamyndir, daglegt líf myndir, íþróttamyndir, portrettmyndir, umhverfismyndir, tímaritamyndir og myndraðir. Í hverjum flokki valdi dómnefndin bestu myndina / bestu myndröðina og ein mynd úr fyrrnefndum flokkum var svo valin sem mynd ársins.
Dómnefndarstörf fóru fram 22. - 23. janúar síðastliðinn en í ár skipuðu dómnefndina þau Hilmar Þór Guðmundsson, Sissa, Íris Dögg Einarsdóttir, Auðunn Níelsson, Torfi Agnarsson, Karl Petersson og Jan Grarup sem jafnframt var formaður dómnefndar.
Eyþór Árnason, sjálfstætt starfandi ljósmyndari, átti mynd ársins.
Kristinn Magnússon átti fréttamynd ársins. Hún sýndi fjölskyldu frá Albaníu, með langveikt barn, var vísað úr landi í rétt fyrir jól. Hófst mikil samfélagsleg pressa um að fá þau aftur sem endaði með því að þau fengu íslenskan ríkisborgararétt
Heiða Helgadóttir fékk verðlaun fyrir mynd ársins í flokknum Daglegt líf.
Eggert Jóhannesson fékk verðlaun fyrir bestu íþróttamyndina. Stjörnukonur fagna íslandsmeistaratitlinum í hópfimleikum á heimavelli sínum í Ásgarði, á þeirri mynd.
Kristinn Magnússon fékk svo verðlaun fyrir bestu portrait myndina, af Sigga Sigurjóns, leikara.
Haraldur Þór Stefánsson fékk verðlaun fyrir bestu umhverfismynd ársins, sem prýðir þessa frétt sem burðarmynd. Myndin sýnir Skaftárhlaup 2015, sem var eitt það mesta í sögunni en þessi mynd sýnir kraftinn sem var við Eldvatnsbrúna skammt frá Ytri Ásum.
Frá dómnefnd, var þessi rökstuðningur: „Myndin sýnir mikla dramatík og kraft náttúrunnar. Persónan á myndinni gefur áhorfandanum viðmið sem gerir upplifun hans enn meiri. Myndvinnslan hæfir myndinni einstaklega vel.“
Blaðaljósmyndarafélag Íslands var stofnað árið 1976 og starfar innan Blaðamannafélags Íslands. Sýningin Myndir ársins hefur verið haldin árlega síðan 1995 og er ein fjölsóttasta ljósmyndasýningin ár hvert. Stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands í ár skipa Eyþór Árnason (formaður), Ernir Eyjólfsson, Anton Brink Hansen, Rut Sigurðardóttir, Heiða Helgadóttir og Styrmir Kári Erwinsson.
Sýningin stendur til 2. apríl og Sögur Útgáfa gefur út bók með myndum
sýningarinnar sem fæst í bókabúðum landsins.
Verðlaun fyrir myndaröð ársins fékk Heiða Helgadóttir, ,meðal annars fyrir myndir sem teknar voru í Laufskálarétt.