Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist í „forundran“ yfir ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um búvörusamningana í gær. Ekki sé hægt að bera saman vörur og fólk með þeim hætti sem hann geri. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Sigmundur Davíð gagnrýndi í fréttum RÚV forseta ASÍ í umræðu um búvörusamninginn. Sagði hann að „stéttir ættu að standa saman“ og Bændasamtökin ættu til dæmis ekki að sitja við borðið þegar félög innan ASÍ semja um kaup og kjör.
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segist undrandi yfir ummælunum, og sagði bæði bændur og landbúnaðarráðherra hafi viðurkennt að neytendur og þeir félagsmenn ASÍ sem vinni í störfum tengdum landbúnaði hafi hagsmuni af samningunum en hafi verið meinuð aðkoma að þeim. „Og þess vegna er dálítið skrítið að forsætisráðherra afi framgöngu um að gagnrýna að við verkjum athygli á þessari skrítnu stöðu að fá ekki að fjalla um hagsmuni okkar fólks. Maður er stundum bara í forundran,“ sagði Gylfi í viðtali við RÚV.
Gylfi gagnrýnd líka samlíkingu forsætisráðherra við aðgengi að ódýru vinnuafli. „Ég skil nú ekki alveg hvert forsætisráðherra er að fara. Að líkja fólki við einhverjar vörur, og réttindi og mannréttindi fólks við stöðu einhverrar vöru, þó að það séu íslenskar landbúnaðarvörur, er einhver samlíking sem nær ekki nokkurri átt,“ sagði Gylfi í samtali við RÚV.