Hinn 27. nóvember 2014 flutti Kjarninn fréttir af því að Landsbankinn hefði selt 31,2 prósent hlut í Borgun, bak við luktar dyr, til valinna fjárfesta. Nákvæmar upplýsingar fylgdu fréttinni, sem Magnús Halldórsson skrifaði, um eigendurna sem fengu að kaupa hlutinn í lokuðu söluferli, og var hún byggð á stofnfundargerðum, samningum um viðskiptin, og upplýsingum sem aflað hafði verið með sjálfstæðri heimildarvinnu,.
Upplýst um aðalatriði
Í greininni kom í fyrsta skipti fram hvernig eigendahópurinn var samsettur, og hvernig hann skiptist hlutfallslega, hvaða eigendur áttu svonefnd A-hlutabréf og hverjir áttu B-hlutabréf, og hvaða umboðsmenn eigenda mættu til stofnfundar, svo eitthvað sé nefnt.Í umfjölluninni sagði meðal annars orðrétt:
„Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt, en Magnús Magnússon, forsvarsmaður félagsins, var sá sem setti sig í samband við Landsbanka Íslands og sýndi áhuga á kaupum á hlut Landsbankans.
Kaupin fóru því fram bak við luktar dyr, þar sem enginn annar en hópurinn sem sýndi áhuga á kaupunum fékk að reyna að kaupa hlutinn. Stofnfé Eignarhaldsfélags Borgunar nemur 500 þúsund krónum sem skiptist í þrjá flokka, 100 þúsund í A flokki, 395 þúsund í B flokki og fimm þúsund í C flokki. Í A og B flokki eru eigendur stofnfjár með takmarkaða ábyrgð en í C flokki er ótakmörkuð ábyrgð.
B flokkurinn langstærstur
Einu eigendur A flokks stofnfjár er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigandi þess er Einar Sveinsson í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited sem skráð er á Lúxemborg.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.
Stofnfundur í október
Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, frá 23. október síðastliðnum, voru fjórir einstaklingar mættir fyrir hönd félaganna Orbis Borgunar slf. og Orbis GP ehf. Þau félög eru þau einu sem eru í eigendur stofnfjár í C flokki með ótakmarkaða ábyrgð. Þau sem mættu á fundinn fyrir hönd félaganna voru Magnús Magnússon, Óskar V. Sigurðsson, Jóhann Baldursson og Margrét Gunnarsdóttir.“
Opnaði á umræðu um sölu á almannaeignum
Í kjölfar þessara frétta hófu fjölmiðlar í landinu að spyrja spurninga í málinu, og fá svör. Kjarninn hélt áfram umfjöllun sinni um málið, og fjallaði Ægir Þór Eysteinsson, þáverandi blaðamaður Kjarnans, meðal annars ítarlega um eigendastefnu ríkisins þegar kemur að eignarhlutum í bönkum, og hvort salan á eignarhlutnum, bak við luktar dyr, samræmdist henni. Þórður Snær Júlíusson, skrifaði enn fremur ítarlegar samantekir um málið, þar sem fjallað var um það, meðal annars í samhengi við fyrri viðskipti og samkeppnissjónarmið sem tengdust eignarhaldi bankanna á hlutum í kortafyrirtækjunum tveimur, Borgun og Valitor.
Magnús, Ægir og Þórður Snær, voru tilefndir til blaðamannaverðlauna ársins í fyrra vegna þessarar umfjöllunar.
Áfram haldið
Í fyrra hélt umfjöllun Kjarnans um málið áfram, og voru blaðamenn saman í því að fjalla um ýmsar hliðar þess, meðal annars að reyna að sannreyna svör Landsbankans um það hvers vegna eignarhlutir bankans í Borgun hefðu verið seldir bak við luktar dyr. Undir niðri var staðreyndin augljósa leiðarljós; almenningur á 98,2 prósent í Landsbankanum, og þar með var sala á hlutum bankans í lokuðu söluferli mál sem varðaði almenning miklu.
Hinn 29. apríl í fyrra var síðan frá því greint að nýir eigendur Borgunar hefðu notið góðs af viðskiptunum nokkrum mánuðum fyrr, en samþykkt var að greiða 800 milljónir til hluthafa í arð, í fyrsta skipti frá árinu 2007. Þetta vakti upp spurningar, meðal annars á hinu pólitíska sviði, um hvort hluturinn hefði verið seldur á undirverði.
Hálfum mánuði síðar, var síðan greint frá því að Landsbankinn hefði auglýst til sölu lítinn eignarhlut í Borgun, sem hann eignaðist við yfirtöku á Sparisjóði Vestmannaeyinga, samtals 0,41 prósent hlut. Í þetta skiptið var ákveðið að hafa söluferlið opið, en bankaráð Landsbankans, með Tryggva Pálsson sem formann, hafði þá viðurkennt mistök við söluna á eignarhlutnum í Borgun, og að betra hefði verið að selja hlutinn í opnu söluferli. Kom þetta fram í ræðu hans á aðalfundi bankans.
Landsbankinn neitaði að gefa upp söluverðið á 0,41 prósent hlutnum í fyrstu, en upplýsti svo um það í janúar á þessu ári, þegar salan var aftur í brennidepli. Þá höfðu Morgunblaðið og 365 miðlar fjallað ítarlega um innra virði Borgunar, meðal annars eftir að upplýsingar komu fram um það að félagið myndi hagnast verulega á því að fá hlutdeild í alþjóðlegum viðskiptum VISA Europe og VISA Inc.
Ekki eru öll kurl komin til grafar ennþá í málinu, og sendi Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, Bankasýslu ríkisins bréf á dögunum þar sem hann minnti á að Landsbankinn þyrfti að njóta trausts. Í bréfinu segir orðrétt: „Það er mat ráðherra að umræða undanfarinna vikna vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun sé til þess fallin að skaða bankann. Því sé nauðsynlegt áður en lengra er haldið í því ferli að hvaðeina er máli skiptir og varðar sölu Landsbankans á Borgun verði upplýst og málið afgreitt með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans verði tryggt.“
Eigendastefna ríkisins, er varðar fjármálafyrirtæki, er nú til endurskoðunar og ekki ólíklegt að til tíðinda getið dregið í þeim málum, og öðrum er tengjast Borgunar-málinu sérstaklega, á næstunni.