Stjórnvöld eiga að grípa tafarlaust til aðgerða til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti og í stöðum sendiherra. Þetta eru tilmæli sem nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum sendi íslenskum stjórnvöldum í vikunni, í kjölfar þess að fulltrúar frá velferðar- og utanríkisráðuneytunum fóru á fund nefndarinnar í Genf í febrúar og svöruðu fyrir framkvæmd Íslands í jafnréttismálum.
Því er líka beint til íslenskra stjórnvalda að þau samþykki tafarlaust aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi sem taki tillit til þarfa kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna, og tryggi fjármagn og mannafl til að lögregluembætti um allt land geti tekið upp verklag lögreglunnar í Reykjavík í ofbeldismálum.
Tilmælin frá nefndinni fjalla um það sem betur má fara í jafnréttismálum á Íslandi. Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, eða kvennasáttmálann. Stjórnvöld eru beðin um að senda nefnd SÞ framhaldsskýrslu innan tveggja ára um framkvæmd þessara atriða.
Mannréttindaskrifstofa Íslands og Kvenréttindafélag Íslands skiluðu inn skuggaskýrslu til nefndarinnar í aðdraganda fundarins með fulltrúum ráðuneytanna, þar sem bent var á brotalamir og hvað betur megi fara til að útrýma mismunun gagnvart konum.
Nefnd Sameinuðu þjóðanna lagði til ýmsar fleiri úrbætur til að tryggja afnám mismununar, eins og að samþykkt verði tafarlaust aðgerðaáætlun í jafnréttismálum, fjármögnun Jafnréttisstofu verði tryggð og hún mögulega flutt til Reykjavíkur. Fleiri tillögur má sjá hér að neðan, en skýrslu nefndarinnar í heild má skoða hér.
- að breyta/skýra hegningarlöggjöfina og banna stafrænt ofbeldi og sálrænt ofbeldi;
- að tryggja aðgengi allra kvenna að kvennaathvarfi, líka kvenna úti á landsbyggðinni, kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna;
- að opna bráðamóttökur kynferðisofbeldis út um allt land;
- að fjármagna aðgerðir gegn mansali;
- að rannsaka stöðu kvenna sem starfa á svokölluðum „kampavínsklúbbum“;
- að íhuga að gera kvenréttindi (kynjafræði) að skyldufagi í grunnskólum og menntaskólum;
- að tryggja að námsbækur sýni raunhæfa mynd af stöðu og hlutverki kvenna í sögunni;
- að athuga hvort hægt sé að víkka út lögin um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja svo þau nái til fyrirtækja með færri en 49 starfsmenn,
- að tryggja að lögreglukonur séu ekki áreittar kynferðislega í starfi sínu;
- að tryggja barnagæslu milli 9 mánaða og 2 ára;
- að tryggja nægilega fjármögnun til fæðingarorlofssjóðs og hækka hámarksgreiðslur úr honum;
- að mennta heilbrigðisstarfsmenn sem taka á móti konum sem sækja um fóstureyðingu og tryggja það að móttökur þeirra séu ekki til þess fallnar að letja konur til að fara í fóstureyðingu;
- að athuga reglugerðir opinberra menningarsjóða og leita leiða til að tryggja að opinberar styrkveitingar til menningarmála skiptist jafnt milli kynjanna;
- að rannsaka stöðu kvenna af erlendum uppruna;
- að tryggja fjármagn til Fjölmenningarseturs og auka aðgengi að þjónustu þess.