Vátryggingafélag Íslands (VÍS) gaf út víkjandi skuldabréf
sem seld voru fyrir um tvo milljarða króna í lok síðasta mánaðar. Lífeyrissjóðir,
verðbréfasjóðir og aðrir fagfjárfestar keyptu útgáfuna, sem ber 5,25 prósent
verðtryggða vexti og er til 30 ára. Það eru umtalsvert hærri vextir en
almenningi býðst hjá lífeyrissjóðum landsins. Þetta má lesa í tilkynningu VÍS til Kauphallar.
Á meðan að á skuldabréfaútboðinu stóð tilkynnti stjórn VÍS tillögur sínar um að greiða út fimm milljarða króna arð þrátt fyrir að hagnaður félagsins í fyrra hafi einungis verið 2,1 milljarðar króna. Þessi arðgreiðsla er m.a. rökstudd með því að reikniskilareglum hafi verið breytt þannig að vátryggingaskuld VÍS, sem oft er kölluð bótasjóður í daglegu tali, var lækkuð um fimm milljarða króna en eigið fé félagsins samhliða aukið um 3,7 milljarða króna.
Nokkrir af stærstu hluthöfum VÍS ætla ekki að styðja arðgreiðsluna á aðalfundi félagsins sem haldinn verður í næstu viku, nánar tiltekið 17. mars. Þrír af fjórum stærstu hluthöfum VÍS eru þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins. Stærstur er Lífeyrissjóður verzlunarmanna en Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins eru einnig á meðal stærstu eigenda. Alls eiga lífeyrissjóðir landsins tæplega 36 prósent hlut í VÍS.
Stjórn VÍS sendi hins vegar frá sér tilkynningu í gær þar sem hún sagðist standa við áform um arðgreiðsluna. Þar stendur m.a.: „Stjórn hefur skilning á því að mörgum þyki arðgreiðslan há. Ástæða þess er sú að félagið hefur farið sér hægt í að greiða arð til eigenda sinna. Á árunum 2009 – 2013 var ekki greiddur út arður hjá félaginu þrátt fyrir hagnað.“ Þess má geta að VÍS var skráð á markað árið 2013, og því komu flestir þeirra hluthafa sem nú eiga í félaginu að því eftir að sá gjörningur átti sér stað.
VÍS hefur greitt sér út töluverðan arð á undanförnum árum, eftir að félagið var skráð á markað. Félagið greiddi hluthöfum sínum 1,8 milljarða króna í arð árið 2014 vegna ársins 2013 og 2,5 milljarða króna í fyrra vegna ársins 2014. Í fyrra var einnig samþykkt að kaupa eigin bréf hluthafa fyrir 2,5 milljarða króna, en slík uppkaup eru ígildi arðgreiðslna utan þess að ekki þarf að greiða fjármagnstekjurskatt af þeim. Stjórn VÍS lagði einnig til að að eigið fé félagsins yrði lækkað á næsta aðalfundi sem fram fer í næstu viku.