Íslenskt atvinnulíf mun þurfa 2000 vinnandi einstaklinga til landsins á hverju ári næstu fimmtán árin ef vöxturinn í atvinnulífinu verður áfram eins og spáð er. „Við þurfum á erlendu vinnuafli að halda, jafnt ófaglærðu sem sérmenntuðu,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, á Iðnþingi í dag.
„Aldurssamsetning þjóðarinnar er að gjörbreytast og við þurfum fleiri vinnandi hendur,“ segir Guðrún. Hin stóra kynslóð eftirstríðsáranna er á leið út af vinnumarkaði. „Í dag eru um sex vinnandi á bak við hvern einn lífeyrisþega. Eftir 25 ár er talið að einungis þrír vinnandi verði á bak við hvern lífeyrisþega. Aukin útgjöld hins opinbera samfara því kalla á aukin umsvif í hagkerfinu og þar gegnir atvinnulífið veigamesta hlutverkinu.“ Þessar staðreyndir eigi ekki að koma á óvart.
„Við höfum á undanförnum árum misst þúsundir Íslendinga til annarra landa, fólk sem leitar að betri lífsgæðum, fólk sem vill auðga líf sitt og kynnast heiminum betur. Okkur finnst sjálfsagt að við getum ferðast út um allan heim en setjum okkur síðan í stellingar gagnvart fólki sem hingað vill koma. Ísland er orðið fjölmenningarlegt samfélag og við eigum að fagna því að hingað kemur fólk sem sér tækifæri í því að setjast hér að, stunda hér vinnu og byggja sér hér heimili. Það er engin ógn í því heldur nauðsynlegur fjölbreytileiki fyrir fámenna og einsleita þjóð,“ sagði Guðrún meðal annars.
Áhyggjur af of fáum iðnaðarmönnum og íbúðum
Meðalaldur iðnaðarmanna er mun hærri en meðalaldur annarra starfsstétta og það segir Guðrún vera áhyggjuefni og sýni að nýliðun sé ábótavant. „Síðasta haust völdu aðeins 14% grunnskólanema starfsmenntun að loknu grunnskólaprófi en hefðu þurft að vera 25-30%. Nú ber svo við að mikill skortur er á nemum í húsasmíði sem hingað til hefur verið fjölmennasta iðngreinin.“ Nú þurfi að taka höndum saman og gera nám og störf í iðngreinum meira aðlaðandi.
Guðrún gerði húsnæðismál einnig að umtalsefni. Það sé kraftur í íslenskum iðnaði og byggingageirinn sé að rétta úr kútnum eftir mörg mögur ár. „En betur má ef duga skal. Það er ekki byggt nóg því okkur vantar sárlega fleiri íbúðir inn á markaðinn. Á síðustu sex árum hefur verið lokið við um 950 íbúðir árlega á höfuðborgarsvæðinu en þær hefðu þurft að vera um 2000 árlega til anna eftirspurn.“
Á að verða til svigrúm fyrir lækkun tryggingagjalds
Batnandi staða ríkissjóðs ætti að gefa fjármálaráðherra svigrúm til þess að efna loforð sín um að lækka tryggingagjald fyrirtækja um 1,5 prósent. „Þar með yrði tryggingargjaldið komið í svipað hlutfall og það var árið 2008. Það myndi hjálpa fyrirtækjunum okkar mikið til að mæta þeim kostnaðarauka sem kjarasamningarnir höfðu í för með sér.“ Vissulega séu kjarasamningarnir kostnaðarsamir og framhlaðnir, en ef markmið SALEK samkomulagsins eftir skapist grunnur að langþráðum stöðugleika á vinnumarkaði. „Stöðugleiki eykur samkeppnishæfni okkar.“