Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari íhugar nú alvarlega að bjóða sig fram til forseta Íslands. Hún segist hafa fengið hvatningu til að bjóða sig fram undanfarna daga og vikur.
„Ég viðurkenni að það hefur hreyft hressilega við mér og er að hugsa málið af fullri alvöru,” segir Bryndís í samtali við Kjarnann. „En þó að maður meti áskoranir mikils, og ég er mjög stolt af því að fólk sjái mig í þessu hlutverki, þá er þetta mjög stór og persónuleg ákvörðun.”
Bryndís segist ætla að taka sér einhverja daga til að hugsa málið og mun tilkynna af eða á í kring um eða eftir páska.
Spurð hvort ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um að bjóða sig ekki fram hafi haft áhrif, segir Bryndís að vissulega hafi allt slíkt áhrif. Það hafi þó verið um síðustu helgi þegar hún ákvað að hugsa málið af alvöru. Katrín sendi frá sér tilkynningu í gærmorgun um að hún hugðist ekki bjóða sig fram.
„Þetta hefur ekki haft langan aðdraganda. Ég ákvað á sunnudaginn, eftir að hafa átt samtöl við fólk um nokkurt skeið, að gefa þessu fullan gaum. En á endanum verður ákvörðunin tekin á mínum eigin forsendum en ekki annarra frambjóðenda.”
Nýskipuð ríkissáttasemjari
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði Bryndísi í embætti ríkissáttasemjara í lok maí í fyrra. Hún hefur því sinnt því starfi í átta og hálfan mánuð. Ráðningin var til fimm ára.
„Ég hafði ekkert hugsað mér til hreyfings,” segir Bryndís. „En þetta er líka mjög spennandi tækifæri sem mér finnst vert að skoða það af fullri alvöru.”
Bryndís var ekki hluti af valmöguleikum í skoðanakönnun Fréttablaðsins um hvern fólk vill sjá í embætti forseta Íslands sem birt var í morgun. Þar mælist Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur með mestan stuðning utan Katrínar og Ólafs Ragnars Grímssonar, sem bæði hafa tilkynnt að þau ætli ekki fram.