Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vill að stjórnvöld skoði hvort ekki sé best að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði í Garðabæ. Þetta kemur fram í grein sem hann skrifar á vefsíðu sína í dag.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við bæjarstjórann í Garðabæ um möguleikann á uppbyggingu Landspítala við Vífilsstaði. Bæjaryfirvöld þar segjast reiðubúin í samstarf um byggingu nýs spítala þar, og hægt sé að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt.
Sigmundur Davíð er mjög jákvæður gagnvart þessari hugmynd. „Mér finnst ekki hægt að líta framhjá þessum kosti nú þegar bæjarstjórinn hefur stigið fram með þeim hætti sem hann gerði,“ skrifar Sigmundur. Hann hafi oft á undanförnum árum lýst þeirri skoðun sinni að hann telji æskilegt að reisa nýjan spítala annars staðar en við Hringbraut, eins og nú er áformað.
„Að mínu mati ber stjórnvöldum að bregðast við þessu tilboði Garðabæjar, taka því fagnandi og skoða hvort ekki sé best, í ljósi allra aðstæðna að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur.“
Á Vífilsstöðum væri hægt að hanna nýjan glæsilegan spítala frá grunni, segir Sigmundur Davíð. „Allt fyrsta flokks í samræmi við möguleika og þarfir samtímans. Enginn fjáraustur í að reyna að gera við hálfónýta hluti, tjasla því saman sem ekki passar saman og laga óhentugar byggingar að heilbrigðisþjónustu 21. aldar. Allt hannað sem ein heild sem vinnur eins og vél um leið og hugað er að mannlega þættinum, því að fólki líði vel í umhverfinu og það sé til þess fallið að lyfta andanum og stuðla að betri andlegri og líkamlegri líðan sjúkling, gesta og starfsfólks.“
Hann segir að margt muni vinna með ef spítalinn verði byggður á nýjum stað. Ekki bara staða ríkissjóðs sem hafi batnað. „Verðmæti fasteigna og lóða í miðbæ Reykjavíkur hefur hækkað gríðarlega frá því að síðast var lagt mat á staðsetningu spítalans. Með því að selja húsnæði og lóðir gætu ríki og borg náð tugmilljarða tekjum. Þessar tekjur gæti ríkissjóður nýtt til að standa straum af umtalsverðum hluta byggingarkostnaðar nýs spítala.“
Hægt væri að selja húsnæði og lóðir og nýta fjármagn strax til að flýta fyrir framkvæmdum á nýjum stað þótt spítalinn myndi ekki flytja strax. „Einnig gæti ríkið veitt öðru fjármagni, t.d. arði úr bönkunum í spítalabygginguna þar til tekjur af sölu eigna við Hringbraut skiluðu sér.“ Aðrar leiðir komi til greina en hvaða leið sem farin yrði „myndu tugir milljarða skila sér í ríkissjóð við það að færa spítalann. Peningar sem ekki yrðu til ella.“ Þá peninga mætti nýta í aðra innviðauppbyggingu, ekki síst á landsbyggðinni.