Magnús Orri Schram hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Magnús vinnur sem ráðgjafi hjá Capacent, en sat á þingi fyrir Samfylkinguna á síðasta kjörtímabili.
Í tilkynningu til flokksfélaga Samfylkingarinnar frá Magnúsi Orra segir hann að framboð hans spretti upp meðal almennra félagsmanna í Samfylkingunni. „Fólk vill sjá breytingar í starfi og forystu flokksins. Fjöldi fólks hefur hvatt mig til þátttöku og er tilbúið í verkefnið með mér,“ segir Magnús Orri í tilkynningunni.
Magnús Orri segir helstu stefnumál sín vera að öll opinber heilbrigðisþjónusta eigi að vera ókeypis, að jafna eigi skattbyrðina og hækka skatta á ríkasta prósentið og lækka skatta á venjulegt launafólk. Þá eigi að fara í markvissar aðgerðir til að styðja ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign eða eru á leigumarkaði.
Einnig eigi að halda útboð á nýtingu auðlinda sem fjármagni alvöru byggðastefnu, viðhafa opið lýðræði þar sem almenningur kemur að ákvarðanatöku og setja fram markvissa aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur þegar tilkynnt að hann ætli í formannsframboð. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur ekki enn tilkynnt um það hvort hann hyggist sækjast eftir endurkjöri. Flokksstjórnarfundur fer fram hjá flokknum í dag. Ákveðið var í vikunni að kosið verður um öll embætti innan flokksins á landsfundi flokksins í byrjun júní.