Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra vissi ekki af því að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra ætti erlenda félagið Wintris á Tortóla. Þetta kom fram á þingi í morgun.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hélt því fram í Morgunútvarpinu í morgun að félag Önnu Sigurlaugar hafi alltaf verið öllum ljóst og aldrei hafi verið reynt að fela það.
Bjarni var spurður um málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, spurði Bjarna um það hvort hann hefði haft vitneskju um málið. „Það hafði ég ekki,“ sagði Bjarni einfaldlega.
Óttarr tók fram að auðvitað hefði verið heppilegra að Sigmundur Davíð væri sjálfur á staðnum og gæti svarað spurningum þingmanna. Sigmundur var hins vegar ekki í þingsalnum, og var ekki einn þeirra ráðherra sem voru til taks í óundirbúnum fyrirspurnatíma.
Bjarni samsinnti því að þetta væri óheppilegt, og sagði jafnvel óeðlilegt að spurningum sem vörðuðu Sigmund Davíð væri beint til hans. Það væri ekki gott að vera settur í þá stöðu að svara fyrir mál sem aðrir væru betur til þess fallnir að svara fyrir.
„Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst að forsætisráðherra verði sjálfur að gera grein fyrir því hvernig þessu máli var fyrirkomið, og við hljótum síðan á endanum að mæla þau mál út frá þeim lögum og reglum sem um efnið gilda.“ Hann hafi ekki séð að nokkuð benti til þess að lög eða reglur hefðu verið brotnar. Hann væri ekki í nokkurri stöðu til að segja að eitthvað óeðlilegt hafi verið á ferðinni. Hann væri viss um að Sigmundur Davíð myndi svara fyrir málið á þingi ef eftir því væri leitað.
Bjarni sagði það ánægjulegt og mikilvægt að það sé samstaða um siðareglur í þinginu. Ekki mætti gleyma því í hvaða tilgangi slíkar reglur væru settar. „Að gera grein fyrir hagsmunum sem kunna að vera til staðar og mikilvægt er að liggi fyrir og eftir atvikum geta haft áhrif á framgang mála hér í þinginu.“