Halla Tómasdóttir ætlar að gefa kost á sér til forseta Íslands. Hún tilkynnti þetta á blaðamannafundi á heimili sínu nú rétt í þessu. Hún segist telja að í forsetaembættinu sé hægt að gera gagn og koma góðum hlutum til leiðar. Það vilji hún gera.
Hún sagði það skipta hana máli að búa í samfélagi þar sem heiðarleiki, hlýja og jafnrétti ráði för. Samfélag þar sem allir skipti máli. „Og ég veit að ég er ekki ein um það.“
Hún sagðist telja að Íslendingar geti orðið fyrstir þjóða til að brúa kynjabilið, enda megi kyn, uppruni, aldur og fjárhagsleg staða ekki ráða för þegar komi að tækifærum í samfélaginu. „Jafnrétti er skynsamleg stefna.“
Halla sagði að hún vildi að á Bessastöðum væru haldnir þjóðfundir og embættið yrði vettvangur upplýstrar umræðu. Hún vildi líka að á Bessastöðum yrðu haldnir tónleikar og börn boðin velkomin.