Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlar ekki að ræða málefni eiginkonu sinnar eða fjölskyldu hennar í fjölmiðlum. Þetta kemur fram í grein á síðu hans. Hann segir að pólitískir andstæðingar hans stökkvi nú fram og reyni að ná höggi á hann með því að ráðast á konu hans, og það láti hann ekki gerast athugasemdalaust.
Forsætisráðherra segist hafa haft það prinsipp að ræða ekki málefni konu sinnar eða fjölskyldu hennar, og ætli að halda sig við það nema sú grundvallarbreyting verði á íslenskum stjórnmálum að æskilegt verði talið að málefni maka stjórnmálamanna séu til umræðu í tengslum við störf þeirra. „Verði sú raunin mætti spyrja margra spurninga um maka stjórnmálamanna allt frá eignum að vinnu fyrir stjórnvöld á liðnum árum.“
Íhugaði að tala um að hann vildi auka tap konu sinnar
Sigmundur segist hafa sagt Önnu Sigurlaugu í kjölfar hrunsins að hún ætti ekki að gera ráð fyrir miklum endurheimtum af því fjármagni sem hún hefði lánað bönkunum. Hann segist hafa sagt við hana að hann myndi berjast fyrir því að engar kröfur yrðu settar á íslenskan almenning og að hagsmunir samfélagsins yrðu hámarkaðir á kostnað þeirra sem ættu peninga hjá bönkunum.
„Eina leiðin til að endurreisa samfélagið væri að afskrifa mikið af kröfum á bankana og það myndi þýða að margir sem þegar hefðu tapað miklu á gjaldþroti þeirra myndu tapa enn meiru. Ég man enn hvað viðbrögð hennar voru einlæg og afdráttarlaus. Hún sagði mér að ef það mætti verða til að draga úr þeim ótta og þjáningum sem við blöstu á Íslandi ætti það að vera markmiðið að afskrifa sem allra mest af kröfum á bankana.“
Sigmundur segir að Anna hafi alla tíð síðan verið helsti hvatamaður hans í því að lágmarka tjón samfélagsins. Hún hafi jafnframt aldrei keypt kröfur eftir hrun, líkt og erlendir vogunarsjóðir eða hrægammasjóðir, heldur hafi hún tapað því sem hún lánaði bönkunum.
„Ég skal viðurkenna að það hvarflaði að mér í kosningabaráttunni árið 2013 að ræða um að ég væri að berjast fyrir því að tekin yrði upp stefna sem myndi auka á tap eiginkonu minnar af bankahruninu. Að athuguðu máli sá ég að það væri ekki forsvaranlegt og skammaðist mín reyndar fyrir að hafa látið mér detta í hug að nota fjárhagslegt tap eiginkonu minnar í pólitískri baráttu.“
Nýtti ekki tækifæri til að fela nokkuð
„En nú þegar fjármál eiginkonu minnar hafa verið gerð að opinberu umræðuefni finnst mér rétt að gera grein fyrir þessu. Um leið bendi ég á að þessi umræða hefur einkum leitt tvennt í ljós. Í fyrsta lagi þá staðreynd að konan mín hefur greitt alla skatta af eignum sínum og ekki nýtt tækifæri til að fela nokkurn hlut. Reyndar hefur hún ekki einu sinni nýtt heimildir laga til að fresta skattgreiðslum. Í öðru lagi að hún hefur í eigin fjármálum eins og öðru tekið hagsmuni annarra fram yfir sína eigin.“
Hann segir að það sem einkenni konu hans umfram annað sé fórnfýsi og heiðarleiki. Hann hafi alltaf sagt henni að hún sé of fórnfús og upptekin af erfiðleikum annarra. Það sé eðlilegt að hafa áhyggjur af mörgu og vilja láta gott af sér leiða. „Það er hins vegar ekki hollt að vera alltaf með hugann við vandamál og líða stöðugt fyrir erfiðleika annarra.“
Sigmundur segir að stjórnmálaátök samtímans einkennist oft af því að „farið sé í manninn“ fremur en málefnið. „Mér er nokkuð sama hvernig hjólað er í mig. Ég er ýmsu vanur í pólitískri umræðu. En menn hljóta að geta fallist á að það sé með öllu ólíðandi að ráðist sé á ættingja eða maka stjórnmálamanna til þess eins að koma á þá höggi. Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hafa engu að síður verið gerðar margar tilraunir til að gera eignir eiginkonu minnar og ættingja tortryggilegar í von um að með því megi koma höggi á mig.“
Hagnaðist á því að sleppa við stöðugleikaskatt
Wintris Inc., félagið sem Anna Sigurlaug á og skráð er á Bresku Jómfrúareyjunum, getur búist við því að fá rúmlega 120 milljónir króna þegar slitabú föllnu bankanna hafa greitt kröfuhöfum sínum. Alls á félagið kröfur upp á 523 milljónir króna og væntar endurheimtir kröfuhafa skila ofangreindri niðurstöðu. Ef stöðugleikaskattur hefði verið lagður á slitabúin hefði það fé sem runnið hefði til kröfuhafa verið um 300 milljörðum krónum lægri upphæð sem nú verður. Því hagnast Wintris umtalsvert á því að slitabúum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans var gert kleift að ljúka slitum sínum með greiðslu stöðugleikaframlags frekar en með álagningu stöðugleikaskatts.
Félag eiginkonu forsætisráðherra á kröfur í slitabú föllnu bankanna vegna þess að það hafði keypt skuldabréf útgefin af þeim fyrir hrun. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest hjá Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem sér um upplýsingagjöf fyrir hönd Önnu Sigurlaugar vegna opinberunar á eign hennar á aflandsfélagi. Þegar neyðarlögin voru sett í október 2008 færðust kröfur vegna slíkra skuldabréfa aftur fyrir innstæður í kröfuhafaröð bankanna. Sigmundur Davíð sat ekki á þingi þegar neyðarlögin voru samþykkt og enn voru þá nokkrir mánuðir í að hann yrði kosinn formaður Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð kom því ekki að þeirri lagasetningu.