Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi fréttastjóri á Stöð 2, segir að Ríkisútvarpið standi fyrir herferð gegn forsætisráðherra. „Ríkisútvarpið hefur loksins fellt grímuna. Hún er ófögur ásjónan sem við blasir. Óvinur nr. 1 er fundinn í Framsóknarflokknum.“
Karl fjallar um fréttaumfjöllun RÚV um málefni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur konu hans, en í ljós hefur komið að Anna Sigurlaug á aflandsfélag á Tortóla sem heldur utan um eignir hennar. Félagið átti kröfur í þrotabú allra föllnu bankanna upp á hálfan milljarð króna. Sigmundur Davíð var meðeigandi í félaginu um tíma, að sögn Önnu Sigurlaugar var það gert fyrir mistök bankans.
Karl segir í grein sinni á Eyjunni að öll lögmál um hlutlægni hafi látið undan í umfjöllun RÚV. „Í Kastljósi lék lausum hala Jón Ólafsson, sem stjórnaði innra umbótastarfi Samfylkingarinnar eftir hrun og hefur verið óspar á neikvæðu lýsingarorðin um Sigmund Davíð síðan sá síðarnefndi tók af honum formennsku í siðanefnd stjórnarráðsins, bitlingnum sem hann fékk í tíð fyrri ríkisstjórnar.“ Þá hafi verið kallaðir til Jóhann Hauksson, fyrrum upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur, og Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður á Stundinni, „sem hefur skrifað ótal greinar um Sigmund og Framsókn, þar sem hatri og fyrirlitningu á flokknum hefur verið sáð.“
Hann tekur fleiri dæmi um viðmælendur RÚV sem hann telur ljóst að hati ýmist Sigmund Davíð eða Framsóknarflokkinn.
„Allt er þetta bullandi hlutdræga fólk er bara kynnt sem hlutlausir álitsgjafar í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, í spjalli um fréttir vikunnar og vangaveltum í morgunútvarpi.“
Karl segir einnig að Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, gangi „nær af göflunum í því heilaga stríði gegn Sigmundi, leiðréttingunni og Framsóknarflokknum, sem hann hefur háð frá því hann skrifaði um Óvin númer 1 fyrir kosningar 2013.“