Tæplega 52% eru hlynnt því að leyfa staðgöngumæðrun á Íslandi, en 23-24% eru mótfallin því, samkvæmt nýrri könnun frá Maskínu. Karla eru hlynntari staðgöngumæðrun en konur, rúmlega 56% karla eru hlynntir því en 47 til 48% kvenna.
Stuðningur við staðgöngumæðrun minnkar með hækkandi aldri, 69% fólks undir 25 ára aldri er hlynnt staðgöngumæðrun en 39% þeirra sem eru 55 ára og eldri. Þá er fólk með háskólapróf síður hlynnt því að leyfa staðgöngumæðrun en þeir sem hafa styttri skólagöngu.
Kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna skera sig frá kjósendum annarra flokka, þar sem um 41% kjósenda Samfylkingarinarr eru hlynntir því að leyfa staðgöngumæðrun og 26% kjósenda Vinstri-grænna. Hjá öðrum flokkum var hlutfallið á bilinu 54 til 58%, hæst hjá kjósendur Bjartrar framtíðar. Andstaðan við það að heimila staðgöngumæðrun er langmest hjá VG, 55,6% segjast andvíg. Minnst andstaða er hjá kjósendum Framsóknarflokksins, 17%.
Í spurningunni var staðgöngumæðrun skilgreind þannig að staðgöngumæðrun í víðum skilningi sé þegar kona (staðgöngumóðir) gengur með barn fyrir par eða einstakling (verðandi foreldra eða foreldri) og hefur fallist á fyrir meðgönguna að afhenda þeim barnið eftir fæðingu.
Nú liggur inni í þinginu frumvarp um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
Þetta er miklu minni stuðningur en mældist þegar tvær kannanir voru gerðar á stuðningi við heimilun staðgöngumæðrunar árið 2011, þegar umræða um málið var mikil. Þá gerði MMR könnun þar sem 87% sögðust fylgjandi því að leyfa staðgöngumæðrun en 13% voru andvíg því. Fréttablaðið gerði einnig könnun sem sýndi tæplega 85% stuðning við það að staðgöngumæðrun yrði heimiluð. 15,3% voru andvíg.