Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa lýst árásinni í Brussel á hendur sér. Að minnsta kosti 34 eru látnir og 200 særðir eftir hryðjuverkin í morgun og varar forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, við frekari árásum.
RÚV greinir frá því að ríkislögreglustjóri hafi í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að efla viðbúnað og viðveru vopnaðra lögreglumanna á Keflavíkurflugvelli eftir hryðjuverkin. Sérsveit ríkislögreglustjóra mun veita lögregluliðinu á flugvellinum aðstoð sína.
Búið er að birta myndir af ódæðismönnunum úr brottfararsal Zavantem flugvallarins, sem sprengdu sig í loft upp í tveimur sprengingum um klukkan 8 að staðartíma í morgun. Ósprungið sprengjubelti fannst á vellinum.
Tvær sprengingar, sem taldar eru hafa verið sjálfsmorðssprengjuárásir, urðu í brottfararsal Zavantem flugvellinum í Brussel um klukkan 8 að staðartíma í morgun, nálægt innritunarborði American Airlines. 14 létust í þeirri árás og um hundrað særðust. Stuttu síðar var þriðja sprengjan í neðanjarðarlestakerfi Brussel, þar sem að minnsta kosti 20 létust og yfir hundrað særðust, þar af margir lífshættulega.
Bretar hafa aukið viðbúnaðarstig í landinu. Útgöngubanni hefur verið lýst yfir í Brussel og eru allar samgöngur og opinberar byggingar lokaðar. Þjóðarleiðtogar hafa send Belgíu samúðarkveðjur og lýst yfir stuðningi.