Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar og einn hluthafi Kjarnans, greindi frá því á Facebook að hann eigi félag í Lúxemborg, í samhengi við fréttir af aflandsfélögum sem tengst hafa þremur ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Lúxemborg er þó ekki skilgreind sem skattaskjól. Vilhjálmur segir það ekkert leyndarmál að hann eigi félag í landinu.
„Það er fullskattlagt félag sem greiðir 21, 84% tekjuskatt. Skattar eru ekki ástæðan fyrir því að ég vil hafa félagið þar, heldur krónan, gjaldeyrishöftin og pólitísk og efnahagsleg áhætta á Íslandi. Ef við værum í ESB væri engin ástæða til að hafa félagið erlendis. Hlutir mínir í sprotafyrirtækjum hér innanlands eru hins vegar að langmestu leyti í íslensku félagi.”
Töluverð ólga hefur verið meðal félagsmanna Samfylkingarinnar á Facebook í dag vegna málsins. Vilhjálmur undirstrikar að hann þó að hann eigi félag í Lúxemborg, eigi hann ekki „aflandsfélag” í „skattaskjóli”.
Erfitt að gera athugasemdir
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn hafa tekið prinsippafstöðu gegn skattaskjólum.
„Það er ósamrýmanlegt trúnaðarstörfum Samfylkingarinnar að vera með eign í skattaskjóli,” segir hann. „En Vilhjálmur segir að þetta sé upplýst félag og skattlagt og með hærri skattprósentu en á Íslandi. Ef málið er þannig vaxið, þá er erfitt að gera athugasemdir við það. Ef það er ekki annað í málinu en þetta. Það mundi horfa öðruvísi við ef félagið væri annars staðar, eða ef það væri eitthvað leynimakk í Lúxemborg.”
Árni Páll segist hafa fengið vitneskju um félagið þegar hann las færslu Vilhjálms á Facebook.
„Ég hef aldrei leitt hugann að því hvar hann ætti peninga,” segir hann. „En yfirlýsingarnar sem hann hefur gefið, sem og skýringarnar um að þetta félag í Lúxemborg sé fullu skattlagt, gefa ekki tilefni til aðgerða.”
Eins og áður segir er Vilhjálmur hluthafi í Kjarnanum. Hann er það í gegnum félag sitt Miðeind ehf. og það félag er í eigu Meson Holding A.S., sem skráð er í Lúxemborg.
Bjarni hélt að félagið sitt væri í Lúx
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er einn þeirra þriggja ráðherra sem tengjast aflandsfélögum í skattaskjólum. Bjarni sagðist í svari sínu til fréttastofu RÚV að hann hafi keypt fyrir tæplega 40 milljónir króna, þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafi stofnað fyrir viðskiptafélaga hans, um kaup á fasteign í Dúbaí. Hann hafi alla tíð staðið í þeirri trú að félagið ætti varnarþing í Lúxemborg, en ekki á Seychelles-Eyjum í Indlandshafi, eins og raunin var.