Búið er að fella niður mikinn meirihluta flugferða milli London Gatwick og Egilsstaða í sumar, vegna þess að eftirspurnin var ekki jafnmikil og búist var við. Greint er frá þessu í frétt á vefnum Túristi.is.
Ferðaskrifstofan Discover the World tilkynnti í haust að boðið yrði upp á beint flug á milli London og Egilsstaða í sumar. Til stóð að fljúga frá lokum maí og út september og fara tvær ferðir í viku, en nú hefur ferðunum verið fækkað úr 35 í níu, og allar ferðirnar verða í júlí og ágúst. Clive Stacey, forstjóri og stofnandi Discover the World, segir við Túrista að upphafleg áætlun fyrirtækisins hafi verið of bjartsýnt. „Eftir á að hyggja hefðum við átt að bjóða upp á styttri flugáætlun strax frá upphafi þar sem hugmyndin um beint flug til Egilsstaða hefur ekki fengið eins mikinn hljómgrunn og við áttum von á,“ segir hann. Bretar sem ferðist til Íslands vilji fara Gullna hringinn og heimsækja Reykjavík og Bláa lónið, og því falli flug til Egilsstaða ekki nógu vel að plöunm þeirra.
Í síðustu viku tilkynnti ríkisstjórnin um veitingu 170 milljóna króna til Flugþróunarsjóðs á þessu ári, og að gert sé ráð fyrir því að sjóðurinn hafi 300 milljónir króna til ráðstöfunar á hverju ári næstu árin. Markmiðið með sjóðnum er að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll, og stuðla þannig að dreifingu ferðamanna. Stjórn sjóðsins verður skipuð sjö einstaklingum og hún á að taka til starfa um miðjan apríl.
Stacey segir að íslenska ferðaþjónustan verði í heild sinni að fjárfesta í markaðssetningu á afskekktari svæðum ef það á að takast að breyta forgangsröðun ferðamanna. Hann segir að stuðningurinn sem ríkisstjórnin hefur boðað sé skref í rétta átt, en að mikilvægt sé að skilyrði fyrir styrkjum séu sveigjanleg og lagi sig að markaðnum. „Eftir því sem flugleiðunum milli Bretlands og Keflavíkurflugvallar fjölgar þeim mun erfiðara verður að bjóða upp á beint flug út á landsbyggðina frá Bretlandi. Ég tel því að innanlandsflug frá Keflavík til staða eins og Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða gæti verið mikilvægt, sérstaklega utan háannatímans.