Gistinætur á hótelum í febrúar voru 267.900 sem er 37 prósent aukning miðað við febrúar 2015. Gistinætur erlendra gesta voru 89 prósent af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 41% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgar um 15 prósent, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.
Þessi vöxtur er umfram flestar spár greinenda, en þær gera ráð fyrir 20 til 30 prósent aukningu í komum ferðamanna til landsins á þessu ári. Háannatími ferðaþjónstunnar er sumartíminn.
Flestar gistinætur á hótelum í febrúar voru á höfuðborgarsvæðinu eða 200.400 sem er 38 prósent aukning miðað við febrúar 2015. Um 75 prósent allra gistinátta var á höfuðborgarsvæðinu. Næst flestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 35.600. Erlendir gestir með flestar gistinætur í febrúar voru; Bretar með 101.600, Bandaríkjamenn með 47.900 og Þjóðverjar með 17.700 gistinætur.
Á tólf mánaða tímabili mars 2015 til febrúar 2016 voru gistinætur á hótelum 2.963.500 sem er 25 prósent aukning miðað við sama tímabil árið áður.