Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra verða báðir til svara í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi á mánudaginn. Þá kemur þing saman í fyrsta sinn í tvær vikur.
Óvenjulegt er að bæði forsætis- og fjármálaráðherra séu til svara á sama þingfundinum, þeir skipta því venjulega á milli þeirra tveggja fyrirspurnatíma sem eru í hverri venjulegri þingfundaviku. Nú verða þeir hins vegar báðir til svara og má fastlega gera ráð fyrir því að þær fimm fyrirspurnir sem komast að í fyrirspurnartímanum muni skiptast á milli þeirra tveggja og muni snúast um skattaskjólsmál.
Lítið vitað um framhaldið
Stjórnarandstaðan ákvað eftir sameiginlegan fund forystunnar og þingflokksfundi í kjölfarið fyrr í vikunni að leggja fram tillögu um þingrof og kosningar. Erfitt er að segja til um hvernig vorþingið verður, en ljóst er að Wintris-málið og tengd mál munu taka mikinn tíma frá þinginu á næstunni.
145 frumvörp til laga eru á endurskoðuðum lista ríkisstjórnarinnar yfir frumvörp sem hún ætlaði sér að koma fram með á þessu þingi, en 61 frumvarp var komið inn í þingið áður en það fór í páskaleyfi. Ríkisstjórnin afgreiddi 20 mál á síðustu tveimur fundum sínum fyrir páskafrí og nokkur til viðbótar í þessari viku.
Fram að þessum tveimur fundum fyrir páska hafði ríkisstjórnin afgreitt 11 frumvörp eftir jól. 61 frumvarp hefur komið inn í þingið það sem af er þessum vetri, og þar af eru 34 orðin að lögum. 20 eru til umfjöllunar í nefndum, fimm bíða fyrstu umræðu og tvö bíða þriðju og síðustu umræðu.
26 þingfundadagar eru eftir af þinginu miðað við starfsáætlun þingsins. Samkvæmt áætluninni á þingið að fara í frí í lok maí. Það má þó ljóst vera að þingrofstillaga og Wintris málið allt mun geta tafið þetta verulega.
Annað kvöld, kvöldið fyrir þingfund, mun Kastljós svo birta umfjöllun sína um eignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum. Umfjöllunin er unnin í samstarfi við Reykjavik Media og ICIJ, alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna. Ljóst er að sú umfjöllun mun varpa enn frekara ljósi á málið og bæta við það enn fleiri vinklum.