Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði strax að segja af sér og ríkisstjórnin öll verði að fara frá. Þetta segir hún á Facebook-síðu sinni.
„Það er ekki bara trúverðugleiki þjóðarinnar gagnvart alþjóðasamfélaginu sem er í húfi - heldur mun þjóðin aldrei líða það sem ráðamenn hafa orðið uppvísir að. Það hefur myndast algjör trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnarinnar og fólksins í landinu,“ segir hún.
Jóhanna segir að uppþot og reiði í samfélaginu verði ekki minni nú en í hruninu. „Fólk vill ekki hafa forsætisráðherra sem það þarf að skammast sín fyrir - forsætisráðherra sem uppvís hefur orðið að blekkingum og óheiðarleika - forsætisráðherra sem lýst hefur vantrausti á gjaldmiðilinn og íslenskt efnahagsumhverfi með því að fela fjármagn sitt í skattaskjóli - forsætisráðherra sem virðist ekki skilja hvað siðferði er og vill fá sjálfur að setja sér sínar eigin siðareglur - forsætisráðherra sem er nú settur í hóp með siðspilltum valdamönnum í heiminum. Forsætisráðherra skuldar þjóð sinni að fara frá strax og koma í veg fyrir uppreisn í samfélaginu.“
Seldi á einn dollara
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra seldi sambýliskonu sinni, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, 50 prósenta hlut sinn í Wintris árið 2009, 31. desember. Hann gerði aldrei grein fyrir þessum eignum í hagsmunaskráningu. Kaupverðið var einn dollari. Engar upplýsingar þurfti að gefa upp um félagið þar sem kaupin fóru fram fyrir áramótin, því ný lög tóku gildi 2010. Þetta kom fram í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur er nú á RÚV um umfangsmesta gagnaleka í sögunni. Elstu gögnin eru frá 1977 og nýjustu frá desember í fyrra. Meira en 11 milljónir skjala er að finna í gögnunum, sem koma frá einni valdamestu lögfræðistofu í Panama, Mossack Fonseca.
Sigmundur Davíð er þar á lista ásamt 11 öðrum þjóðarleiðtogum, til dæmis Sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani, sem Íslendingar þekkja í tengslum við Al-Thani málið, og Pútín Rússlandsforseti.
Eins og greint hefur verið frá er Wintris skráð á Tortólu. Svo virðist sem öll skráning í kring um félagið sé á reiki, og bendir margt til að eignaskráningin sé dagsett aftur í tímann. Mikið er lagt á sig að fela eignahlutinn í Wintris og þarf maður að grafa töluvert til að finna hina raunverulegu eigendur, Önnu Sigurlaugu og Sigmund Davíð. Wintris átti kröfur í bú Glitnis. Sigmundur Davíð skráði aldrei tengsl sín við Wintris í hagsmunaskráningu á Alþingi og ekkert bendir til þess að eignarhaldið hafi verið rangt skráð.