Stjórnarandstaðan ætlar að leggja fram tillögu um vantraust, þingrof og kosningar á Alþingi á morgun eða hinn. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar funda í fyrramálið, en þing kemur saman klukkan 15 á morgun og hefst dagskrá á óundirbúnum fyrirspurnum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra verða báðir til andsvara.
Lítið annað er á dagskrá þingsins á morgun, að undarskildum þremur fyrirspurnum, sem snúa að barkaígræðslum, metanframleiðslu og takmörkunum á plastumbúðum.
Alþingi undirlagt á morgun
Viðbúið er að stjórnarandstaðan nýti sér dagskrárliðinn fundarstjórn forseta til að ræða við forsætisráðherra og fjármálaráðherra um aflandsfélagamálin eftir afhjúpun í Kastljósþætti kvöldsins sem unninn var í samstarfi við Reykjavik Media og alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna. Því má gera ráð fyrir að þingfundur standi fram undir kvöld eða lengur.
Búið er að boða til mótmæla á Austurvelli klukkan 17 á morgun. Mikill fjöldi hefur boðað komu sína.
Kjarninn hefur reynt að ná tali af forystu og þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í kvöld, án árangurs.
Sigmundur á að stíga til hliðar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, væntir þess að tillaga um vantraust, þingrof og kosningar verði dreift til þingmanna á morgun.
„Ég held að eftir kvöldið, eftir það sem hefur komið fram um hvernig Sigmundur afsalaði sér sínum hlut í félaginu degi áður en lög gengu í gildi, þar sem hann reyndi að hylma yfir sannleikann í viðtalinu sem var sýnt úr, þá hefði ég talið eðlilegt að hann stigi til hliðar,” segir hún.
Tillaga stjórnarandstöðunnar snýr að forsætisráðuneytinu og þar með ríkisstjórninni allri. Katrín segir að ekki megi gleyma því að tveir aðrir ráðherrar hafi verið afhjúpaðir, þó að þeirra mál séu umfangsminni heldur en Sigmundar. „Það er samt ljóst að þau héldu líka upplýsingum leyndum.”
Spurð hvort að möguleg afsögn Sigmundar myndi hafa áhrif á tillögu stjórnarandstöðunnar segir Katrín að þá þurfi að skoða stöðuna í því ljósi.