Almenningi er ekki ljóst hvaða skoðun er ríkjandi innan íslensks atvinnulífs á þeim vafasömu starfsháttum sem viðgengust fyrir hrun fjármálakerfisins. Þar með hlýtur „vafi að ríkja á því í huga fólks að atvinnulífið rýni markvisst eigin starfshætti.“
Þetta segir Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq kauphallar Íslands, í ítarlegri grein á vef Kjarnans í dag, þar sem hann fjallar um íslenskt atvinnulíf, stöðu efnahagsmála og ekki síst hvers vegna það gengur hægt að byggja upp traust á atvinnulífinu hjá almenningi.
Páll segir að færa megi fyrir því sterk rök að málsvarar viðskiptalífsins eigi að láta sig umræðu um dóma vegna hrunmála varða svo ekki leiki „nokkur vafi á viðhorfi meginþorra atvinnulífsins á viðskiptaháttum í aðdraganda hrunsins,“ eins og orðrétt segir í grein hans.
„Að mínu mati ber opinber umræða þess merki að almenningi er ekki ljóst hvaða skoðun er ríkjandi í atvinnulífinu á þeim vafasömu starfsháttum sem viðgengust fyrir hrun. Þar með hlýtur að ríkja vafi á því í huga fólks að atvinnulífið rýni markvisst eigin starfshætti. Umræða um þá dóma sem fallið hafa í málum tengdum hruninu einkennist af harðri gagnrýni á ákæruvaldið og dómstóla af hálfu þeirra sem hafa verið sakfelldir. Fæstir, ef nokkrir, virðast telja sig hafa gert nokkuð rangt. Á meðan aðrir blanda sér ekki í umræðuna er hættan sú að litið verði á þessa sömu menn sem málsvara viðskiptalífsins. Að mínu mati má færa sterk rök fyrir því að forsvarsmenn í íslensku viðskiptalífi eigi að láta sig þessa umræðu varða til þess að ekki leiki nokkur vafi á viðhorfi meginþorra atvinnulífsins á viðskiptaháttum í aðdraganda hrunsins. Alvarleg lögbrot voru framin. Afleitir viðskiptahættir kostuðu gríðarlega fjármuni og mikla þjáningu. Stórkostleg markaðsmisnotkun átti sér stað. Trú á markaðshagkerfið og hið frjálsa framtak hefur beðið hnekki. Starfsumhverfi atvinnulífsins hefur laskast af þessum sökum. Mikið er í húfi. Þörf er á skýrum skilaboðum, segir Páll í grein sinni.