Söfnunin tók stökk í gærkvöldi
Rúmlega 22.200 manns hafa skrifað undir áskorun til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að segja af sér. Söfnunin, sem er titluð „Sigmundur Davíð, þér er hér með sagt upp störfum!“
Vefsíðan fór í loftið 26. mars og fór nokkuð hratt af stað. Þó hægðist á fjölda undirskrifta næstu daga, en eftir þátt Kastljóssins í gær settu rúmlega 5.200 manns nafn sitt á listann. Í dag hafa safnast tæplega 2.000 undirskriftir.
24 studdu Sigmund í gær
Önnur undirskriftarsöfnun, „Við styðjum Sigmund Davíð”, var sett á laggirnar á sama tíma. Rúmlega þúsund manns hafa skrifað undir hana. Fjöldi undirskrifta var mestur fyrstu þrjá dagana, en undanfarna daga hefur hægt á henni. 24 skrifuðu undir í gær eftir Kastljós og átta hafa skrifað undir í dag.
Fjölmenn mótmæli í dag
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli klukkan 17 í dag. Fyrir Kastljósþátt gærkvöldsins höfðu um það bil tvö þúsund manns boðað komu sína. Nú, um 15 klukkustundum síðar, hafa 7.700 sagst ætla að koma á mótmælin á Facebook og um 6.300 sýna viðburðinum áhuga. Mótmælin bera yfirskriftina Kosningar strax.
Fjáröflun Reykjavik Media gengur vel
Kastljósþáttur gærkvöldsins var unninn í samstarfi við Reykjavik Media og ICIJ, alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna, upp úr mesta gagnaleka sem um getur í sögunni. Reykjavik Media, undir forystu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar blaðamanns hóf söfnun á Karolina Fund í gærkvöld eftir þáttinn og ekki sólarhring síðar hafa safnast meira en 77 prósent af takmarkinu, rúmlega 30.000 evrur, eða rúmlega 4,2 milljónir íslenskra króna.
Erlendir fjölmiðlar eru undirlagðir af fréttum um gagnalekann, sem hefur verið kallaður Panamapapers. Gögnin koma úr lögfræðistofu á Panama, Mossack Fonseca. Erlendar fréttir af íslenska forsætisráðherranum eru yfirleitt þar efst á baugi, ásamt Pútín Rússlandsforseta.