Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra funduðu nú fyrir hádegi um þá stöðu sem komin er upp innan ríkisstjórnarinnar. Bjarni kom til landsins í morgun frá Bandaríkjunum og lét það verða sitt fyrsta verk að hitta Sigmund.
Ekki fæst uppgefið hvar ráðherrarnir funduðu. Ekki næst í aðstoðarmenn þeirra og upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar segist í samtali við Kjarnann ekki vita hvar þeir eru.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kom einnig til landsins í morgun. Hann var í einkaerindum erlendis og flýtti heimför sinni í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin. Hann ætlar að eiga fund með Sigmundi og Bjarna í dag. Í viðtali við Vísi.is segir hann stöðuna innan ríkisstjórnarinnar alvarlega.
Stjórnarandstaðan hefur verið að funda í morgun og formenn og þingflokksformenn þeirra ætla að hittast klukkan 12 í þinghúsinu á formlegum fundi.
Afstaða framsóknarmanna breytist hratt
Afstaða framsóknarmanna til stöðu forsætisráðherra hefur breyst töluvert á síðustu dögum. Nú síðast sagði Karl Garðarsson, þingmaður flokksins, við RÚV að Sigmundur þurfi að skýra mál sitt betur og leggja fram öll gögn tengdu Wintris-málinu. Sigmundur sagði í gær á Stöð 2 að það kæmi til greina að gera það.
Ásmundur Einar Daðason sagðist í gær styðja forystu flokksins „eins og staðan væri í dag”. Þá hefur Framsóknarflokkurinn á Akureyri lýst því yfir að Sigmundur eigi að segja af sér og njóti ekki lengur stuðnings.
Fréttin hefur verið uppfærð.