Ákvörðun Júlíusar Vífils Ingvarssonar, um að segja af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kom nokkuð á óvart, en hún setur líka gott fordæmi fyrir aðra. Þetta sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, í viðtali við RÚV. Hann áréttaði síðan á Facebook, að hann teldi ákvörðun Júlíusar til þess fallna að auka traust á stjórnmálunum, mikið verk væri óunnið í því efni.
„Sögulegur borgarstjórnarfundur. Júlíus Vífill Ingvarsson sagði af sér sem borgarfulltrúi í upphafi fundar. Jafnframt barst inn á fundinn yfirlýsing frá Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og flugvallarvina, sem er í barnsburðarleyfi, þar sem hún óskar áframhaldandi leyfis, ef á þarf að halda, á meðan hennar mál eru til skoðunar. Borgarfulltrúar þökkuðu Júlíusi Vifli fyrir samstarfið og að stíga skref til að efla traust á borgarstjórn. Í því sambandi er þó ljóst að mikið verk er fyrir höndum. Traust á pólítik í landinu öllu er því miður í lágmarki, og þar er borgarstjórn því miður engin undantekning. Því þurfum við svo sannarlega að breyta,“ segir Dagur á Facebook síðu sinni.
Júlíus kvaddi sér hljóðs á í upphafi borgarstjórnarfunds í morgun og sagði að ekki væri um félag að ræða heldur sjóð, sem m.a. færi ekki með fasteign og ekki mætti veðsetja eignir hans, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þrátt fyrir þetta ætlaði hann að segja af sér embætti. Í kjölfarið þakkaði hann öllum fyrir gott samstarf, sérstaklega starfsfólki borgarinnar og borgarfulltrúum.
Júlíus gaf út yfirlýsingu vegna málsins í síðustu viku þar sem hann sagði að sjóðurinn hafi verið stofnaður í svissneskum banka til að mynda eftirlaunasjóðinn sinn, en að honum hafi verið ráðlagt að skrá stofnun hans í Panama. Sjóðurinn lúti svipuðu regluverki og sjálfseignastofnun. Aflandsfélagið heitir Silwood Foundation. Nú hefur hann vikið vegna málsins.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina í Reykjavík, ætlar ekki að snúa aftur til starfa fyrr en yfirferð innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, um hagsmunaskráingu borgarfulltrúa, er lokið en forsætisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti tillögu um að fela innri endurskoðun og siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga, að taka til skoðunar hagsmunaskráningu borgarfulltrúa. „Ég styð slíka tillögu og mun aðstoða framangreinda aðila við þá vinnu í hvívetna,“ segir Sveinbjörg Birna í yfirlýsingu.
Í fréttaskýringarþættinum Kastljósi sl. sunnudag var fjallað um félög sem voru stofnuð meðan Sveinbjörg Birna var búsett í Luxemborg, áður en hún hóf afskipti af stjórnmálum á Íslandi. „Af því tilefni sendi ég regluverði Reykjavíkurborgar og forseta borgarstjórnar bréf þar sem ég fór yfir þau viðskipti sem fjallað er um í þættinum og bauðst til að veita frekari skýringar teldi regluvörður þörf á því,“ segir í yfirlýsingunni.
Sveinbjörg Birna snýr aftur úr fæðingarorlofi 13. júní, en mun ekki hefja störf á nýjan leik fyrr en skoðun á hagsmunaskráningunni er lokið. „Ég hef tekið þessa ákvörðun til að borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina geti áfram veitt meirihluta borgarstjórnar nauðsynlegt aðhald. Fjárhagsstaða borgarinnar er sem kunnugt er slæm og viðvarandi tap á rekstri borgarinnar á sama tíma og dregið er úr þjónustu. Í mínum huga er þýðingarmest að kjörnir fulltrúar einbeiti sér að leysa slík mál, frekar en að eyða dýrmætum tíma í þref um skráningu mína á hagsmunaskrá,“ segir í yfirlýsingu Sveinbjargar Birnu.