„Hann hefði kannski átt að segja þingflokknum frá þessu fyrst,“ sagði Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins í fréttum RÚV, um yfirlýsingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Yfirlýsingin hafi komið honum á óvart.
Karl staðfesti þannig að Sigmundur Davíð bar það ekki undir sinn eigin þingflokk að hann vildi rjúfa þing og boða til kosninga, eins og hann tilkynnti að hann væri reiðubúinn að gera á Facebook í morgun.
Forsætisráðherra sagði í morgun að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins treysti sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum hennar myndi hann rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta. Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem hann setti inn. Hann segist stoltur af verkum sínum og óhræddur við að leggja þau í dóm kjósenda hvort sem það gerist nú eða síðar.
Sigmundur segist hafa átt mjög góðan fund með Bjarna Benediktssyni í morgun þar sem þeir hafi rætt árangur ríkisstjórnarinnar og mikilvægi þess að klára þau stóru verkefni sem undirbúin hafi verið síðustu misseri og ár. Það þurfi að klára ýmisleg verkefni, „sé viljinn fyrir hendi.“
Ef hins vegar sjálfstæðismenn treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum þeirra „myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“