Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir kröfu vera uppi um að boðað verði til kosninga og almenningur verði þannig látinn móta næstu skref. „Það er uppi hávær krafa um kosningar, það er það sem fólk er að kalla eftir,“ sagði Katrín, í viðtali við Einar Þorsteinsson, fréttamann RÚV. Hún áréttaði einnig, að hún væri enn að átta sig á stöðu mála, eins og aðrir, en nú reyndi á að hinir kjörnu fulltrúar á Alþingi ræddu um stöðu mála, og væru í góðu samstarfi á meðan atburðarásin væri að skýrast.
Eins og kunnugt er, þá óskaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra eftir því við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að hann veitti honum heimild til að rjúfa þing. Ólafur Ragnar sagðist ekki tilbúinn til að veita honum slíka heimild þar sem forsætisráðherra náði ekki að sannfæra forsetann um að Sjálfstæðisflokkurinn væri samþykkur slíku. Þetta kom fram á skyndilegum blaðamannafundi sem nú stendur yfir á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar hefur þess í stað ákveðið að eiga fund með Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, síðar í dag. Eftir atvikum mun hann ræða við formenn eða leiðtoga annarra flokka.
Ólafur Ragnar sagði það ekki við hæfi að forsetinn væri dreginn inn í þá atburðarrás sem hófst með einhliða yfirlýsingu Sigmundar Davíðs á Facebook í morgun um að hann væri tilbúinn í þingrof og kosningar með þeim hætti sem forsætisráðherra hafði lagt upp. Eftir að hafa rætt við Sigmund Davíð í síma í gær höfðu þeir ákveðið að hittast klukkan 13 í dag. Í morgun klukkan 11, eftir fund sinn með Bjarna Benediktssyni, hafi forsætisráðherra farið fram á að fundinum yrði flýtt.