Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir að forsætisráðherra hafi verið leiddur í gildru af þeim fréttamönnum sem stóðu að viðtali við hann sem nú er sýnt út um allan heim. Þar segir einnig að RÚV, sem sýndi sérstakan Kastljós-þátt í samstarfi við fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media um málið á sunnudag, ,megi eiga það að stofnunin hafi „ekki farið leynt með þá ætlun sína að knésetja forsætisráðherrann með öllum tiltækum ráðum.“ Í leiðaranum er sett fram frekari gagnrýni á þá fjölmiðla sem komu að birtingu á fréttum úr gögnum sem lekið var frá Mossack Fonseca & Co í Panama og sagt að að sú falska mynd sem dregin hafi verið upp af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í þeirri framsetningu. Það breyti þó ekki því að „hvorki forsætisráðherrann né formaður Sjálfstæðisflokksins hafa haldið vel á þessum málum og það skyggir á annað sem þeir hafa gert vel. Þeir skulda þjóðinni ærlega og einarðlega yfirferð yfir þetta mál, án undanbragða og afsakana. Þeir mega lítinn tíma missa.“ Ritstjórar Morgunblaðsins eru Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen.
Fjallað er um málið í leiðara DV í dag, en á forsíðu þess blaðs stendur stórum rauðum stöfum „Búið“. Þar skrifar annar ritstjóri blaðsins, Eggert Skúlason, og segir Sigmund Davíð ekki njóta lengur trausts. „Ríkisstjórn Íslands er í öndunarvél.“ Eggert gagnrýnir, líkt og Morgunblaðið, þá sem tóku viðtalið við forsætisráðhera og segir: „En gildran sem sett var upp af hálfu þáttarstjórnendanna var líka fordæmalaus. Hvar hefði það gerst í heiminum að spyrill smyglaði sér inn í viðtal við þjóðarleiðtoga og færi að taka þátt í viðtali? Bara á Íslandi.“
Í Fréttablaðinu skrifa Þorbjörn Þórðarson um afsagnir ráðherra í sögulegu samhengi. Í niðurlagi hans segir: „Í ljósi viðbragða forsætisráðherra við umfjöllun Kastljóss um aflandsfélög verður að teljast ósennilegt að hann segi af sér. Hann, líkt og aðrir íslenskir stjórnmálamenn, virðist líta á það sem pólitískan ósigur að yfirgefa embætti fremur en að líta á afsögnina sem tæki til að standa vörð um traust í garð embættisins og til að tryggja vinnufrið í því ráðuneyti sem hann stýrir.“