Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að það hafi ekki verið neinn misskilningur á milli hans og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fráfarandi forsætisráðherra á fundi þeirra í dag. „Atburðarrásin var nákvæmlega eins og ég lýsti,“ sagði forsetinn í beinni útsendingu á RÚV rétt í þessu. Hann sagði samt ekki vera við hæfi að hann „elti ólar við frásögn hans.“
Ólafur Ragnar segir að Sigmundur Davíð hafi mætt með ritara ríkissráðs og ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu með sér á fund þeirra í morgun. Aldrei fyrr hafi svona lagað gerst í hans embættistíð. Með í för hafi verið ríkisráðsskjalataskan, sem geymi skjöl ríkisráðsins.
Það hafi verið ljóst að Sigmundur Davíð hafi viljað að Ólafur Ragnar vildi samþykkja þingrofsbeiðni hans, og þegar ljóst hafi orðið að forsetinn ætlaði ekki að gera það hafi hann viljað fá fyrirheit um að það yrði gert seinna.
„Eins og hann gaf í skyn á bloggsíðu sinni þá tvinnaði hann saman annars vegar þingrofið og síðan viðræður sínar við forman Sjálfstæðisflokksins...Það var ljóst í samræðum okkar að einn megintilgangur þess að koma í flýti hingað var að fá slíkt fyrirheit sem hann gæti síðan notað sem vopn í viðræðum við formann Sjálfstæðisflokksins,“ sagði forseti Íslands. Hann segist ekki hafa talið við hæfi að forsetaembættið væri notað með þessum hætti í pólitískum deilum.
Ólafur Ragnar vildi við RÚV ekki útiloka að hann endurskoðaði ákvörðun sína um að hætta sem forseti í sumar. Hann sagði hins vegar að það ætti að vera fólki alveg ljóst að atburðarrásin í dag sýni ótvírætt að ákvarðanir forsetans geti haft mikil áhrif.