Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vissi ekki af ákvörðun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að stíga til hliðar og leggja til að Sigurður Ingi Jóhanesson yrði forsætisráðherra í hans stað, samkvæmt heimildum Kjarnans. Sigurður Ingi tilkynnti um þessa tillögu Framsóknarflokksins þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á leið á Bessastaði að hitta forseta Íslands. Sigurður Ingi segist hafa tilkynnt Bjarna um þessar vendingar símleiðis.
Bjarni sagðist eftir fund sinn með forsetanum að hann myndi hitta Sigurð Inga og fara yfir möguleikana með honum. Hann mundi ekki gera þá kröfu að verða forsætisráðherra.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, fór einnig á fund Ólafs Ragnars nú undir kvöld. Hann hitti fyrst fulltrúa stjórnarandstöðunnar á þingi sem vilja að Alþingi komi saman án tafar í ljósi aðstæðna.