Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, og Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður flokksins, funda nú með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fráfarandi forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins, í Stjórnarráðshúsinu. Frá þessu er greint á vef RÚV. Þar segir einnig að þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu undir það búnir að funda síðar í dag varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði í hádeginu að það væri „alveg ljóst að hér tekur við ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar". Hann sagði fullan vilja vera hjá þingflokkum bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til að halda áfram stjórnarsamstarfinu. Ríkisstjórnin hefði góðan þingmeirihluta, stór mál væru framundan og engin ástæða væri til þess að ætla annað en að ríkisstjórnin héldi áfram störfum. Sigurður Ingi hafði skömmu áður sagt að það myndi draga til tíðinda varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar í dag.
Í dag hafa birst ýmsar kannanir sem sýna lítinn stuðning við ríkisstjórnina. Í könnun MMR, sem var framkvæmd á mánudag og í gær, kom fram að einungis 26 prósent styðja hana sem stendur. Það er 6,4 prósent minna en í síðust mælingu, sem fór fram um miðjan mars. Fylgi Framsóknarflokksins minnkaði um tæp fjögur prósentustig á milli kannana MMR og stóð í 8,7 prósentum en fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 22,5 prósent.
Staða ríkisstjórnarinnar var enn verri samkvæmt könnum miðla 365 sem birt var í morgun. Þar kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé með 21,6 prósent fylgi. Það lækkaði mikið á milli kannana miðla 365, en í síðustu könnun fékk flokkurinn samtals 27,6 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn er orðinn næst minnsti flokkur landsins, en 7,9 prósent landsmanna segja að þeir myndu kjósa flokk fráfarandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Fylgi hans hrynur úr 12,8 prósentum á milli kannanna. Samtals mælist því fylgi við sitjandi valdaflokka undir 30 prósent. Í síðustu kosningum fengu þeir samtals 51,1 prósent atkvæða sem dugði til að fá 38 þingmenn og góðan meirihluta á Alþingi.