Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir að það sé komin niðurstaða um áframhaldandi samstarf stjórnarflokkanna. Niðurstaðan verður kynnt um klukkan 19 að sögn RÚV. Sigurður Ingi og Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður flokksins, hafa nú yfirgefið Stjórnarráðshúsið þar sem þeir hittu Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Þingflokkar beggja flokka hafa verið boðaðir á fundi klukkan 18 og í kjölfar þess verður tilkynnt hver niðurstaðan er.
Ásmundur Einar sagði í hádeginu að það væri „alveg ljóst að hér tekur við ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar". Hann sagði fullan vilja vera hjá þingflokkum bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til að halda áfram stjórnarsamstarfinu. Ríkisstjórnin hefði góðan þingmeirihluta, stór mál væru framundan og engin ástæða væri til þess að ætla annað en að ríkisstjórnin héldi áfram störfum. Sigurður Ingi hafði skömmu áður sagt að það myndi draga til tíðinda varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar í dag.