Lilja Dögg Alfreðsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri í Seðlabankanum og fyrrverandi verkefnisstjóri í forsætisráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, verður utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Gunnar Bragi Sveinsson verður þá nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta herma heimildir Kjarnans.
Sigmundur Davíð lagði fram þá tillögu á þingflokksfundi Framsóknar í gær að Lilja yrði nýtt ráðherraefni flokksins og sæti utan þings. Samkvæmt heimildum Kjarnans kom einnig upp sú hugmynd á fundinum að Ásmundur Einar Daðason þingflokksformaður yrði nýr ráðherra.
Ásmundur studdi Lilju á fundinum
Ásmundur tók til máls á fundinum þar sem hann lagði til að Lilja yrði frekar ráðherra heldur en hann. Hann mundi halda áfram að sinna þeim mikilvægu störfum fyrir flokkinn sem hann hefur gert hingað til.
Ákveðið var að halda leynilega atkvæðagreiðslu um málið og þar bar Lilja sigur úr býtum.
Gunnar Bragi hefur verið utanríkisráðherra í tæp þrjú ár og hefur verið mikið erlendis, eins og greint hefur verið frá. Búist er við því að hann taki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu fagnandi, þar sem hann getur þá sinnt kjördæmi sínu betur og tengt sig betur við innanlandsmálin. Ásmundur Einar og Gunnar Bragi koma báðir úr norðvesturkjördæmi.