Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að það sé enginn munur á máli hans og Bjarna Benediktssonar, ef fólk líti á þetta út frá prinsippum. Þetta kom fram í Íslandi í dag í kvöld.
„Ef að menn eru fyrst og fremst að líta á þetta sem prinsip-mál að þeir sem hafi verið á einhvern hátt viðriðnir svona félög, átt ættingja sem hefur það, að þeir eigi þá að gefa pólitíkinni frið á meðan málið er að lægja, nei, þá er ekki munur,“ sagði Sigmundur Davíð aðspurður um málið í Íslandi í dag í kvöld. Umræðan hafi snúist um að aflandsfélög í skattaskjólum séu ekki boðleg á Íslandi. Hann sagðist samt skilja að Bjarni héldi því fram á pólitískum forsendum að það sé munur á málum þeirra.
Bjarni Benediktsson var líka í viðtali í Ísland í dag og hann sagði að það væri grundvallarmunur á málum þeirra tveggja. Ráðherrar ættu ekki að hafa neitt aflandsfélag neitt nálægt sér. „Ég held að það sé óhætt að segja að það sé mikill grundvallarmunur á því að vera sem ráðherra ekki með neitt slíkt félag nálægt sér og það er ekki nein uppi nein spurning um hagsmunaárekstra af nokkrum toga. Ég held að það sé hægt að segja, og nú er ég bara að lýsa minni skoðun, þegar ég horfi yfir sviðið og horfi á fréttir reyni að rýna í það hvað menn eru að reyna að draga út úr þessi og kannski ekki síst að utan, glöggt er gests augað og allt það. Þá staldra menn við það að þarna voru kröfur á slitabúin á sama tíma og ríkisstjórnin var að vinna að lausn þeirra mála. Þetta er auðvitað auðvitað mikill grundvallarmunur.“
Áhrifafólk vildi fórna Sigmundi og Bjarna
Sigmundur Davíð sagði líka í viðtalinu að áhrifafólk innan Sjálfstæðisflokksins hafi verið að velta því fyrir sér hvernig nýta mætti aðstæðurnar sem upp komu á síðustu dögum og að það hafi átt að fórna honum og fórna Bjarna Benediktssyni líka. Staða ríkisstjórnarinnar og hans hafi verið orðin mjög þröng.
Sigmundur Davíð var líka spurður um fund sinn með forseta Íslands en sagðist ætla að skrifa sjálfur um þann fund síðar og hlakkaði til þess.