Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í dag, að rammi um peningamálastefnuna í landinu yrði að liggja fyrir áður en losað yrði um höftin, eins og til stendur að gera á næstu vikum og mánuðum. „Nýr rammi verður betri en sá sem við höfðum fyrir fjármálakreppu. En hann verður engin töfralausn,“ sagði Már.
Hann ítrekaði síðan í lokaorðum, að það væri takmarkað sem peningastefnan gæti skilað, þar sem hún væri framkvæmd við óvissuskilyrði í síbreytilegum heimi.
Már ítrekaði það sem hann hefur áður komið inn á, að Seðlabankinn þyrfti að búa yfir tæki til að vinna gegn óhóflegu innstreymi fjármagns, t.d. vegna vaxtamunarviðskipta. „Því yrði þó ekki beitt gegn venjulegu flæði sem er eðlilegur þáttur í miðlun peningastefnunnar heldur fyrst og fremst þegar flæði verður óhóflegt og hætta er á að miðlun peningastefnunnar um vaxtaferilinn veikist of mikið.“
Dregur til tíðinda
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, sagði í gærkvöldi að á næstunni muni draga til tíðinda þegar kæmi að losun hafta, og vísaði sérstaklega til aflandskrónuútboðsins sem ætlað er að minnka niður snjóhengju aflandskróna. Nefndi Bjarni næstu tvær til þrjár vikur sem tímaramma, í þeim efnum.
Ennfremur sagði Már að hreint flotgengi, það er haftalaus gengismarkaður, myndi ekki verða ofan heldur væri „um að ræða stýrt flot sem hefði þó ekkert tiltekið gengismarkmið heldur væri markmiðið að draga úr óhóflegum sveiflum vegna tímabundins fjármagnstreymis og draga úr skammtímaflökti í gengi.“
Gott stofnanafyrirkomulag
Þá sagði hann að stofnanafyrirkomulag bankans, það er að vera með peningastefnunefnd sem tekur ákvarðanir um breytingu stjórntækja bankans, svo sem vaxta, sendir frá sér yfirlýsingar og eftir atvikum upplýsir þing og þjóð um forsendur ákvarðana, væri gott í samræmi við bestu erlendu fyrirmyndir.
Sagði Már að þetta hefði gengið vel og reynslan til þessa góð, en þessu var breytt þegar viðamiklar breytingar voru gerðar á lögum Seðlabanka Íslands áður en Már tók við sem seðlabankastjóri. „Það er verkefni næstu mánaða að útfæra ramma peningastefnunnar og því verki þarf að ljúka áður en fjármagnshöft á innlenda aðila eru losuð. Endanlegt form hans er að mínu viti sameiginleg yfirlýsing ríkisstjórnar og Seðlabankans eins og gert var fyrir 15 árum, árið 2001. Umræðan heldur því áfram,“ sagði Már.
Inngrip sem stýritæki
Már sagði ennfremur að inngrip á gjaldeyrismarkaði væru einnig tæki sem seðlabankinn gæti beitt til að auðvelda framkvæmd peningastefnunnar og tryggja stöðugleika. „Önnur tæki koma til greina eins og bindiskylda og bein inngrip á skuldabréfamarkaði. Virkni þeirra er þó alla jafna óvissari en vaxtatækisins og þeim því beitt sjaldnar,“ sagði Már.
Stýrivextir eru nú 5,75 prósent, verðbólga 1,5 prósent og evran kostar 141 krónu.