Tveir ríkisráðsfundir hafa verið boðaðir á Bessastöðum í dag. Fyrri fundurinn hefst klukkan 14 og sá síðari klukkan 15. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu.
Sigmundur hættir sem ráðherra í dag
Sigurður Ingi Jóhannsson mun taka við forsætisráðherraembættinu af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á Bessastöðum og Lilja Alfreðsdóttir kemur inn í ríkisstjórn fyrir hönd Framsóknarflokksins. Ekki fékkst uppgefið á blaðamannafundi forystumanna ríkisstjórnarinnar í gærkvöld hvaða embætti hún muni gegna. Lilja var áður tímabundinn verkefnisstjóri í forsætisráðuneyti Sigmundar Davíðs.
Brugðist við með 38 atkvæðum á móti vantrausti
Þá hefst þingfundur klukkan 10:30. Eina málið á dagskrá fundarins er óundirbúinn fyrirspurnatími. Ekki hefur verið ákveðið hvenær vantrauststillaga kemur fram.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var spurður að því á fundinum í gær hvernig stjórnin muni bregðast við vantrauststillögu andstöðunnar:
„Við ætlum að bregðast við henni með því að greiða 38 atkvæði á móti henni,” var svar Bjarna.