David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, þarf að gera grein fyrir öllum fjármálum sínum, sem snúa að viðskiptum aflandsfélagsins Blackmore Invesments Fund, eftir að ljóst varð að hann hafði sagt ósatt um hagsmuni sína, sem tengjast félaginu.
Á blaðamannafundi á þriðjudaginn, fullyrti hann, og ítrekaði raunar síðar um daginn sömuleiðis, að hann „tengdist með engum hætti aflandsfélagi“. Þegar betur var að gáð, í Panamaskjölunum svokölluðu, reyndist hann hafa hagnast á eignarhlut föður síns í félaginu, um 31.500 pund, eða sem nemur um 5,5 milljónum króna.
Cameron viðurkenndi þetta í gær, og er nú lentur undir mikilli pressu í breska þinginu, sem boðað hefur rannsókn á öllum fjármálum Cameron og annarra þingmanna sem tengjast aflandsfélögum með einum eða öðrum hætti.
Ken Livingstone, fyrrverandi borgarstjóri í London, er einn þeirra sem hefur gagnrýnt Cameron harkalega og sagt að hann ætti ekki aðeins að vera rannsakaður ítarlega, eftir að hafa sagt af sér, heldur ætti hann að þurfa að svara fyrir þessi mál fyrir dómi. „Þetta eru alveg sérstaklega skaðleg og alvarleg mál [...] Nú er komið í ljós að faðir Cameron hafi verið í þrjátíu ár, í því að þvætta peninga í gegnum Panama, án þess að borga skatta í samræmi við lög í Bretlandi,“ sagði Livingstone í viðtali í dag, sem Telegraph vitnar til.
Cameron segist engin lög hafa brotið, og allt hafi verið gefið upp til skatts í samræmi við lög. Í morgun fór Independent fram á það í leiðara að Cameron myndi segja af sér, þar sem hann hefði verið staðinn að því að leyna upplýsingum fyrir þingi og þjóð, og segja ósatt í þokkabót um tengsl sín við aflandsfélög.
Mótmæli eru nú skipulögð við Dowingstræti 10, þar sem meginkrafan er sú að Cameron segi af sér. Hann hafi boðið átak gegn aflandsstarfsemi banka og skattaskjólum, en hafi sjálfur hagnast á slíkri starfsemi. Það gangi ekki.