Trúnaðarbrestur varð þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði ósatt í viðtali við sænska sjónvarpið. Það er ekki boðlegt að segja ósatt frekar en að leyna hagsmunum tengdra aðila. Þetta sagði Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í helgarútgáfunni á Rás 2 í dag. Hann segir að tafarlaust þurfi að fara fram rannsókn af hálfu hins opinbera á tengslum Íslendinga við aflandsfélög, því umfangið sé svo mikið.
„Forsætisráðherrann sagði ósatt og það í rauninni er slæmt því allt sem í framhaldi kemur er dregið í efa. Og ég held að þar hafi orðið trúnaðarbrestur, að forsætisráðherra treysti sér ekki til að segja satt á því augnabliki, þegar hann er bara spurður hreint út. Ég held að þar hljóti lexían að vera sú að það er enginn valkostur að segja ósatt um svona hluti. Það er enginn valkostur að leyna hagsmunum tengds aðila í svona stóru máli,“ sagði Frosti. Hann sagði að hann efaðist ekki um að skattar hafi verið greiddir af félaginu Wintris og að Sigmundur hafi barist af heilum hug fyrir hagsmunum Íslands. Samt sem áður orki það mjög tvímælis að leyna þessum upplýsinsum. „Þá getur hann ekki svarað svona spurningu, eða honum vefst tunga um tönn og þá er traustið farið.“