Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um tímabundið bann við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ráðherra sé óheimilt að selja eignarhluti ríkisins þangað til 1. nóvember næstkomandi.
Ráðherrann sem um ræðir er fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að því sé ætlað að bregðast við því „fordæmalausa ástandi sem upp er komið í íslenskum stjórnmálum.“ Staða ríkisstjórnarinnar sé mjög ótrygg og megi líkja núverandi ríkisstjórn við starfsstjórn sem sé ætlað að sitja framyfir kosningar. „Ekki er því eðlilegt að sú ríkisstjórn sem nú situr geti tekið afdrifaríkar og stefnumarkandi ákvarðanir á þeim fáu mánuðum sem eftir eru af starfstíma hennar. Slíkar ákvarðanir ber að bíða með að taka fram yfir næstu kosningar þar sem stjórnmálamenn munu fá nýtt umboð frá kjósendum til góðra verka.“
Bjarni Benediktsson sagði í þinginu í síðustu viku að ekki standi til að selja banka fyrir kosningar. Þetta sagði hann í svari við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata. „Það stendur ekki til að selja banka fyrir kosningar eins og háttvirtur þingmaður virðist telja. Það er einfaldlega rangt.“