Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hafa bæði birt upplýsingar úr skattframtölum sínum á netinu.
Eygló reið á vaðið og birtir í hagsmunaskráningu sinni tekjur, skuldir og eignir hennar og eiginmanns hennar. Árni Páll segir á vefsíðu sinni í dag að hann fagni frumkvæði hennar. „Ég vil fara að frumkvæði hennar og legg því spilin algerlega á borðið hvað varðar tekjur mínar og Sigrúnar, eignir okkar og skuldir. Vonandi verður það öðrum hvatning til að svara réttmætum spurningum sem að þeim snúa.“
Í upplýsingum Eyglóar kemur fram að þau hjónin hafi átt eignir upp á rúmlega tvær milljónir króna í fyrra. Þau skulduðu tæplega níu milljónir króna til LÍN og banka. Tekjur þeirra námu rúmlega 23 milljónum króna.
Árni Páll og eiginkona hans eiga eignir upp á 70 milljónir króna, og skulduðu rúmlega 39 milljónir króna samkvæmt nýjasta skattframtalinu. Þau höfðu tekjur upp á 18,5 milljónir króna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í viðtali við Morgunblaðið um helgina að hann og eiginkona hans væru reiðubúin að birta frekari gögn um skattamál sína ef aðrir forystumenn geri slíkt hið sama.
Eygló og Árni Páll birta hvorugt skattframtölin sjálf, heldur bara þessar upplýsingar. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur birt skattframtöl sín nokkur ár aftur í tímann vegna tengsla sinna við Panamaskjölin.