Um 27 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningum samkvæmt nýrri Gallup-könnun, sem RÚV greindi frá. Það er aukning um fimm prósentustig frá síðustu viku. Framsóknarflokkurinn fengi tæp sjö prósent sem er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í febrúar 2008. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna mælist því 34 prósent.
Greinilegt er að Wintris-málið, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði af sér sem forsætisráðherra vegna, og er nú í leyfi frá þingstörfum, er að leika Framsóknarflokkinn grátt. Hann fékk tæplega 25 prósent fylgi í kosningunum 2013.
Þrátt fyrir að Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi einnig haft tengingar við aflandsfélög, sem til umfjöllunar voru í tengslum við Panamaskjölin, þá hefur það ekki neikvæð áhrif á fylgi flokksins, heldur þvert á móti.
Píratar fengju samkvæmt þessari könnun 29,3 prósent sem er þremur prósentustigum minna en fyrir viku, en flokkurinn hefur í tæpt ár mælst með yfir 30 prósent fylgi í flestum skoðanakönnunum.
Rétt tæp 20 prósent myndu kjósa Vinstri græn sem er þremur prósentustigum meira en fyrir viku og þarf að leita aftur til september 2010 til að finna meira fylgi við flokkinn. 9 prósent segjast myndu kjósa Samfylkinguna, 5 prósent Bjarta framtíð, nær 3 prósent Viðreisn og tæpt eitt prósent aðra flokka eða framboð.
Niðurstöður þessarar könnunar eru úr netkönnun Gallups sem gerð var 7. til 12. apríl. Heildarúrtak var 1.434 og var þátttökuhlutfall 56,1 prósent og af þeim nefndu 82,9 prósent flokk. Spurt var: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?