Minnihluti kröfuhafa Reykjanesbæjar hefur synjað því að ganga til samninga við sveitarfélagið á grundvelli samkomulags um fjárhagslega endurskipulagningu sveitarfélagsins. Því er ljóst að samkomulag mun ekki nást um hana. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Í samkomulaginu fór Reykjanesbær fram á að fá niðurfærslu á skuldum sínum upp á 6.350 milljónir króna. Í síðustu viku var samþykkt í bæjarráði sveitarfélagsins að því yrði skipuð fjárhaldsstjórn náist ekki samkomulag við kröfuhafa þess fyrir 15. apríl, sem er á morgun. Því blasir við að Reykjanesbær verði skipuð slík fjárhaldsstjórn.
Í drögum að samkomulagi sem lögð voru fyrir fund bæjarráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku kom fram að kröfuhafarnir þurfi að færa niður „skuldir og/eða skuldbindingar Reykjanesbæjar og stofnana hans með beinni niðurfærslu samtals að fjárhæð kr. 6.350 milljónir.“ Í drögum að samkomulagi við kröfuhafa er einnig gert ráð fyrir því að kröfuhafar „Reykjanesbæjar og/eða stofnana hans sem njóti tryggingar í fasteignum og/eða eru með leigusamning við sveitarfélagið samþykki sama hlutfall í formi niðurfærslu skulda, lækkun leigugreiðslna og/eða breytingu skilmála. Miðað er við að tryggðir fjárhagslegir kröfuhafar gefi eftir 24,4% af skuldum og/eða skuldbindingum sínum við Reykjanesbæ og stofnanir hans. Með tryggðum kröfuhöfum í samkomulaginu er átt við kröfuhafa sem njóta veðtryggingar í fasteignum og/eða eru leigusalar Reykjanesbæjar.“
Óverðtryggðir kröfuhafar sveitarfélagsins þurfa hins vegar að samþykkja 50 prósent niðurfærslu á kröfum sínum og að aðrir fjárhagslegir kröfuhafar gefi eftir 45 prósent af kröfum sínum.
Allir bæjarráðsfulltrúar samþykktu drögin að samkomulaginu en sú tillaga að láta skipa fjárhaldsstjórn náist ekki niðurstaða fyrir 15. apríl var samþykkt með þremur atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum minnihlutans.
Ótrúlegar skuldir
Reykjanesbær, er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins. Skuldir þess voru tæplega 41 milljarður króna í lok árs 2014. Skuldirnar eru rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinlínis í andstöðu við lög. Til viðbótar eru skuldir EFF um átta milljarðar króna og Reykjanesbær er í ábyrgð fyrir skuldum Reykjaneshafnar, sem skuldar rúma sjö milljarða króna, aðallega vegna uppbyggingu Helguvíkurhafnar. Tekjur á móti þeim skuldum sem stofnað var til hjá Reykjaneshöfn eru litlar en reiknað var með að þær myndu að mestu leyti koma frá stóriðju sem átti að byggjast upp á svæðinu og nýta þjónustu hafnarinnar. Þau stóriðjuáform hafa enn sem komið er ekki orðið að veruleika.
Kjarninn greindi frá því 3. október að Reykjaneshöfn hefði formlega óskað eftir fjármagni frá Reykjanesbæ til að geta staðið við greiðslur lána sem voru á gjalddaga 15. október 2015. Á meðal þess sem höfnin þurfti að greiða af voru tveir skuldabréfaflokkar. Þetta kom fram í tilkynningu til Kauphallar, en umrædd skuldabréf eru skráð þar. Í tilkynningunni sagði einnig: „Vegna yfirstandandi vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar er óvissa um möguleika Reykjanesbæjar til að fjármagna greiðslurnar. Því getur komið til greiðslufalls á skuldbindingum Reykjaneshafnar.“ Reykjaneshöfn óskaði eftir, og fékk, greiðslufresti þegar ljóst var að hún gat ekki greitt ofangreindar greiðslur. Sá frestur hefur verið framlengdur nokkrum sinnum síðan.
Mun verri afkoma en lagt var upp með
Í október síðastliðnum var útkomuspá Reykjanesbæjar fyrir árið 2015 birt í Kauphöllinni. Samkvæmt henni yrði samandregin rekstrarniðurstaða neikvæð um 716 milljónir króna á árinu, sem er um 300 milljónum krónum verra en áætlanir gerðu ráð fyrir. A-hlutinn, sem er grunnrekstur sveitarfélagsins, myndi verða rekinn með 725 milljóna króna tapi, en áætlanir gerðu ráð fyrir 514 milljón króna tapi. Samanlagaður rekstur A- og B-hluta, sem er aðallega Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar (m.a. EFF), myndi verða rekinn með 716 milljón króna tapi en áætlanir höfðu gert fyrir að tapið yrði 411 milljónir krona.