Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir ekki tilefni til að hefja frumkvæðisathugun á aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á afnámi gjaldeyrishafta og uppgjöri slitabúa föllnu bankanna. Þetta kom fram á fundi umboðsmanns með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun og Vísir greinir frá.
Á fundinum sagði Tryggvi að hæfisreglur stjórnsýslulaga eigi aðeins við um stjórnvaldsákvarðanir sem snertu réttindi borgaranna. Eina vanhæfisreglan sem gilti um þingmenn væru að þeir mættu ekki greiða atkvæði um fjárútlát til þeirra sjálfra. Hlutverk hæfisregla væri fyrst og fremst ætlað að vernda réttindi þeirra sem ákvarðanir beindust að, er fram kemur í frétt Vísis.
Þá sagðist umboðsmaður ekki getað séð að um samninga hafi verið að ræða milli ríkis og kröfuhafa í tengslum við uppgjör slitabúanna og eða að stjórnvöld hafi tekið ákvarðanir um greiðslur til einstaka kröfuhafa. Wintris, félag eiginkonu Sigmundar Davíðs, er einn kröfuhafa í slitabúin.
Að mati Tryggva gæti hins vegar verið ástæða til að ganga lengra við hagsmunaskráningu en nú er gert.