Óvissa er um hvað verður um húsið sem hýsir nú höfuðstöðvar Íslandsbanka við Kirkjusand. Myglusveppur fannst í byggingarefnum en Kjarninn greindi frá þessu í mars. Rannsóknir hafa staðið yfir á húsnæðinu síðan þá og samkvæmt fréttatilkynningu sem bankinn sendi frá sér um helgina kemur fram að fylgst sé vel með loftgæðum í húsinu en ljóst sé að fara þurfi í töluverðar endurbætur á húsnæðinu. Unnið sé með verkfræðistofunni EFLU að rannsóknum ásamt finnska ráðgjafafyrirtækinu Vahanen.
Íslandsbanki hafði stefnt að því að stækka aðalhöfuðstöðvar sínar á Kirkjusandi með viðbyggingu við suðurvesturenda þeirrar byggingar sem fyrir er. Samhliða ætlaði bankinn sér að sameina starfsemi höfuðstöðva sinna, sem nú eru á fjórum stöðum, á einn stað á Kirkjusandi. Viðbyggingin átti að vera um sjö þúsund fermetrar og áætlanir gerðu ráð fyrir að framkvæmdir við hana myndu hefjast í lok síðasta árs.
Edda Hermannsdóttir, samskiptafulltrúi Íslandsbanka, segir að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um Kirkjusandshúsið ennþá. Það verði skoðað á næstunni hversu miklar endurbæturnar verða. Einnig sé í skoðun hver framtíð reitsins við Kirkjusand verður.
Á stefnufundi starfsmanna Íslandsbanka sem fór fram á laugardaginn var tilkynnt að höfuðstöðvar Íslandsbanka muni á haustmánuðum flytjast í Norðurturninn í Kópavogi frá Kirkjusandi þar sem höfuðstöðvar bankans hafa verið undanfarin 20 ár.
Í tilkynningunni segir:
„Með þessari breytingu verður starfsemi höfuðstöðva, sem í dag fer fram á fjórum stöðum, sameinuð undir einu þaki þar sem 650 starfsmenn munu starfa. Mikil hagkvæmni fylgir sameiningunni en samanlagður fermetrafjöldi höfuðstöðvastarfsemi fer úr 13.900 í 8.600 fermetra í Norðurturninum.
Um hríð hefur legið fyrir að sameina starfsemi bankans í nýjum höfuðstöðvum. Íslandsbanki mun áfram vera leiðandi í stafrænni þjónustu og eru nýjar og framsæknar höfuðstöðvar liður í efla þróun bankans og sókn á markaði. Nýtt útibú bankans mun jafnframt opna á 1. hæð Norðurturnsins í nóvember en sú vinna hefur staðið yfir undanfarna mánuði.“
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að þau hafi beðið lengi eftir að geta sameinað alla höfuðstöðvastarfsemi bankans á einum stað. Vegna aðstæðna á Kirkjusandi hafi þau flýtt þessum áformum og sjái mikil tækifæri í hinum nýja höfuðstöðvum. Bankinn vilji vera framsýnn í starfsemi sinni og þau muni nú, undir einu þaki, geta boðið starfsfólki og viðskiptavinum upp á enn betri þjónustu.