Sádi-Arabar gætu til lengdar litið tapað stórkostlega á því að selja í skyndi bandarískar eignir sem landið á, upp á um 750 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um nærri 100 þúsund milljörðum króna.
New York Times greindi frá því á föstudaginn, að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafi komið til skilaboðum til skila, í heimsókn í Washington DC á dögunum, að til greina kæmi að selja verðbréf og aðrar eignir í Bandaríkjunum, verði frumvarp sem gerir það að verkum að ríkið njóti ekki lengur friðhelgi bandarískra dómstóla vegna hryðjuverkaárása á bandarískri grund að lögum.
Lögin eru talin áhrifamikil fyrir Sádi-Arabíu og formfesta mikilvægt viðskiptapólitískt samband ríkjanna. Sádi-Arabía hefur í gegnum áratugi byggt upp mikla efnahagslega hagsmuni í Bandaríkjunum. Eignirnar eru meðal annars bundnar í ýmsum innviðum sem mikilvægir eru fyrir olíuiðnað, svo sem hafnarstarfsemi og vöruflutningum. Þá á ríkið sem fyrr segir eignir upp á 750 milljarða Bandaríkjadala sem teljast verið auðseljanlegar, og eru aðallega í tryggingum og verðbréfum.
Sádi-Arabar hafa alltaf þvertekið fyrir það að ríkið hafi átt þátt í árásunum 11. september 2001, á tvíburaturnanna í New York, og að rannsóknarnefnd 9/11 hefði ekki fundið neitt sem bendir til þess að ríkisstjórn Sádi-Arabíu ætti þátt í árásunum.
Samtök aðstandenda þeirra sem létust í árásunum hafa lengi barist fyrir því að friðhelgi gagnvart Sádi-Arabíu verði felld niður, og að öll gögn um árásina verði gerð opinber, til að leiða hið sanna í ljós. Ekki sé ásættanlegt að Bandaríkin sé með konungsríkið í skjóli sínu, ef það hefur átt beina aðkomu að mannskæðasta hryðjuverki sem framið hefur verið í Bandaríkjunum.
Í New York Times segir að lengi hafi verið uppi getgátur og orðrómur um að embættismenn í Sádi-Arabíu hafi komið að undirbúningi árásanna. Niðurstaða og gögn rannsóknarnefndarinnar hafa ekki verið gerð opinber, og því liggur ekki fyrir hvaða ályktanir nefndin dró varðandi þessi atriði. Það þykir gefa vísbendingu um að einhver tengsl kunni að vera, fyrst lagabreytingar um friðhelgina eru til skoðunar og umræðu.Lögin, sem eru frá 1976, gera það ómögulegt að ákæra meðlimi konungsfjölskyldunnar í Sádi-Arabíu eða háttsetta embættismenn landsins fyrir bandarískum dómstólum, alveg sama hvaða athafnir það eru sem eru til rannsóknar.
Hagfræðingar, sem New York Times ræðir við í dag, segja að ef Sádi-Arabar láti verða af því að selja eignir, þá gæti það dýpkað efnahagsleg vandamál landsins. Konungsríkið hefur gengið í gegnum erfiðleika að undanförnu, eftir mikið verðfall á olíu og offramboð á mörkuðum. Að undanförnu hafa lánshæfismatsfyrirtæki lækkað lánshæfieinkunnir ríkisins um eitt þrep, og hefur það leitt til aukins vantrausts á stoðir efnahags ríkisins.
Þrátt fyrir það, gæti eignasalan verið högg fyrir Bandaríkin til skamms tíma, en talið er ólíklegt að Sádi-Arabar láti verða af þessu. Ekki mætti þó vanmeta stöðu Sádi-Arabíu og ennfremur digra sjóði konungsfjölskyldunnar. Þeir væru geymdir víða, og áhrifin af stefnubreytingu ríkisins þegar kemur að ávöxtun fjármuna geta verið mikil.