Veitingamaðurinn Magnús Ingi Magnússon, sem rekur Sjávarbarinn og Texasborgara út á Granda, hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá honum.
Magnús er fæddur árið 1960. Hann hefur rekið sitt eigið fyrirtæki um árabil. Magnús er kvæntur Analisu Montecello.
Magnús gekk í Hótel- og veitingaskólann, vann svo á millilandaskipum og kláraði kokkanám á Hótel Sögu.
Eftir það vann hann á veitingahúsum í Reykjavík, sem skólabryti og kennari að Laugum í Þingeyjarsýslu og var þar kokkur yfir sumartímann. Magnús Ingi hefur víðtæka reynslu af einkarekstri.
Hann segist í fréttatilkynningu ekki vera tengdur neinum stjórnmálaflokki, og vilja beita sér fyrir jafnrétti, trúfrelsi og samstöðu.
Tilkynning hans fer hér að neðan.
„Ég fæddist árið 1960 og hlaut heilbrigt og gott uppeldi á venjulegu heimili.
Ég bý að góðri menntun og reynslu frá Íslandi, hef rekið mitt eigið fyrirtæki í langan tíma og verið í sambandi við fjöldann allan af góðu fólki í gegnum tíðina.
Ég er kvæntur til tíu ára Analisa Montecello frá Filippseyjum.
Ég er trúaður kristinn maður og ber virðingu fyrir öllum trúarbrögðum. Eiginkona mín er kaþólskrar trúar.
Ég er ekki tengdur neinum stjórnmálaflokki og hef kosið eftir sannfæringu hverju sinni.
Ég vil jafnrétti kvenna og karla og vil vinna að jafnrétti fyrir alla.
Ég vil að við tökum vel á móti öllu erlendu fólki sem hingað kemur og að við komum fram við það af virðingu.
Ég er fylgjandi öflugu velferðarkerfi og vil efla heilbrigðiskerfið. Ég er hlynntur einkavæðingu samhliða ríkisreknu heilbrigðiskerfi.
Ég er fylgjandi öflugu menntakerfi með áherslu á sköpun og frumkvæði þar sem allir hafa jöfn tækifæri á öllum sviðum samfélags okkar.
Ég er fylgjandi skýrum leikreglum sem gera okkur kleift að veita bæði einstaklingum og fyrirtækjum athafnafrelsi innan skýrs ramma. Ég tel slíkt athafnafrelsi og sköpunargleði vera forsendu framfara í okkar samfélagi.
Ég er meðmæltur því að virkja auðlindir þjóðarinnar. Við verðum að komast að samkomulagi um hvaða orkulindir á að virkja og hverjar á að vernda. Þetta samkomulag verður að vinna af heilindum og með víðtækri framtíðarsýn.
Ég hef ekki áhuga á inngöngu Íslands í Evrópusambandið en er hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort taka eigi upp viðræður við sambandið.
Ég er fylgjandi skýrum leikreglum og vil að Bessastaðir séu vettvangur umræðu og farvegur fyrir vilja þjóðarinnar. Ég tel því mikilvægt að fá niðurstöðu í stjórnarskrármálin.
Ég á ekki peninga á aflandseyjum og skattaskjólum.
Ég tala og skil ensku, dönsku, sænsku og norsku.
Áhugamál mín eru matur, ferðalög innanlands og erlendis, myndlist, tónlist, mótorhjólaferðir og samneyti við góða vini og vinahópa.
Ég er stoltur af minni ferilskrá. Mér hefur auðnast að framkvæma margt og hef starfað með góðu fólki hér heima og erlendis.
Ég hef starfað mikið úti á landi, t.d. í Munaðarnesi í Borgarfirði, Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi og Laugum í Þingeyjarsýslu.
Svo hef ég ferðast mikið um landið allt og tekið upp þætti í Eldhúsi meistaranna á ÍNN og kynnst skemmtilegu fólki.
Ég er matreiðslumeistari og veitingamaður. Sautján ára fór ég í Hótel- og veitingaskólann að læra til matreiðslumanns. Vann á millilandaskipum áður en ég fór að læra kokkinn á Hótel Sögu. Eftir það vann ég á veitingahúsum í Reykjavík, sem skólabryti og kennari að Laugum í Þingeyjarsýslu og kokkur á sumrin þar. Fór til Þrándheims í Noregi og vann á Royal Garden-hótelinu. Stofnaði eigin veitingarekstur árið 1988 og rak veitingahúsið Árberg í Ármúla, veitingahúsið Munaðarnes í Borgarfirði, Hótel Eldborg á Snæfellsnesi og mötuneyti hjá ríkisstofnunum. Starfaði á skemmtiferðaskipinu Black Watch og rak veitingahúsið Sjanghæ við Laugaveg. Síðustu árin hef ég svo rekið Sjávarbarinn og Texasborgara úti á Granda og veisluþjónustuna Mína menn samhliða því. Árum saman hef ég haldið úti þáttunum Eldhús meistaranna á sjónvarpsstöðinni ÍNN, þar sem mottóið er afþreying, skemmtun og fróðleikur. Þar tek ég menn tali sem eru tengdir mat allsstaðar að af landinu og eru þættirnir orðnir um 300 talsins.
Ég hyggst fjármagna mitt framboð sjálfur en tek á móti framlögum ef einhverjir vilja styrkja mig samkvæmt þeim reglum sem um það gilda.
Meðmælalistar liggja frammi á Texasborgurum. Ég býð öllum sem skrifa undir Texas-ostborgara með frönskum fyrir viðvikið. Allir eru velkomnir og ég hvet landsbyggðarfólk sérstaklega til að koma við á Texasborgurum þegar það á leið í bæinn. Skilyrði fyrir undirskrift á meðmælalista er að vera íslenskur ríkisborgari og hafa gild skilríki meðferðis.
Virðingarfyllst,
Magnús Ingi Magnússon.“