Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, benti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, á það í símtali þann 4. apríl síðastliðinn að það væru fleiri möguleikar í stöðunni sem upp var komin en áframhaldandi ríkisstjórn hans eða þingrof. Hann viðraði möguleika eins og minnihlutastjórn.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Ólafs Ragnars á Bessastöðum nú í dag, þar sem hann tilkynnti að hann hygðist gefa kost á sér til forseta í sjötta skiptið.
Fréttamaðurinn Þorbjörn Þórðarson á Stöð 2 spurði Ólaf Ragnar hvort það væri rétt að hann hefði viðrað hugmyndir um myndun utanþingstjórnar mánudaginn 4. apríl og að hann hefði rætt við Má Guðmundsson seðlabankastjóra um að verða fjármálaráðherra. Ólafur Ragnar sagði að ef hann hefði talað við Má hefði það sennilega verið til að biðja hann að vera forsætisráðherra, en neitaði því að þetta hefði átt sér stað. Hann sagðist ekki hafa rætt við nokkurn mann um það.
Hann sagðist hins vegar hafa rætt við Sigmund Davíð í síma þennan dag og bent honum á að fjölmargir möguleikar væru í stöðunni aðrir en að halda áfram ríkisstjórninni eins og hún var eða rjúfa þing og boða til kosninga. Hann hafi til að mynda nefnt möguleikann á minnihlutastjórn og breytingum innan ríkisstjórnarinnar.
Ólafur Ragnar sagði á blaðamannafundinum að atburðir síðustu vikna hefðu haft afgerandi áhrif á ákvörðun sína. „Einhvers staðar verður að vera reynsla og það verður að vera kjölfesta,“ sagði Ólafur Ragnar. Hann sagði að hvort sem fólki líki betur eða verr sé það þannig að forsetinn beri ábyrgð á því að landið verði ekki stjórnlaust.