Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, og Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður flokksins, lýsa báðir yfir ánægju með ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að gefa áfram kost á sér í embættið.
„Ég fagna yfirlýsingu Ólafs Ragnar, hann hefur reynst þjóðinni öflugur þjónn á síðustu árum og þjóðin treystir því að hann geri slíkt áfram. Væntanlega er hann að bregðast við ákalli þjóðarinnar, allavega fjölmargra sem hafa haft samband við hann,“ sagði Sigurður Ingi við Stöð 2 eftir blaðamannafund Ólafs Ragnars. Hann sagði að í ljósi þess sem á undan er gengið komi ákvörðun hans „þannig á óvart“ en auðvitað hafi aldrei verið á vísan að róa með málið.
Sigurður Ingi var spurður hvort hann styddi Ólaf Ragnar og svaraði því að Ólafur Ragnar hafi „reynst þjóðinni vel á síðustu árum og samstarf okkar hefur verið fínt, svo ég gleðst yfir því ef það verður niðurstaðan, en það eru auðvitað kosningar framundan.“
Ásmundur Einar sagði við RÚV eftir blaðamannafundinn að honum lítist vel á ákvörðun Ólafs Ragnars, sem hann hafi tekið vegna fjölda áskorana. „Persónulega hef ég stutt Ólaf Ragnar og geri það áfram. Hann hefur staðið lýðræðisvaktina, gerði það í Icesave og fáum treysti ég betur til að standa með þjóð sinni þegar og ef að því kemur að hann verður kjörinn aftur.“
Aðrir stjórnmálamenn hafa ýmist lítið viljað tjá sig eða lýst yfir óánægju með ákvörðun Ólafs Ragnars. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði við RÚV að henni væri misboðið og Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að sama hversu ágætur forseti sé, þyki henni „algerlega off“ að forseti í lýðræðisríki sitji í 24 ár. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ákvörðunina ekki koma sér á óvart í ljósi óróa og óstöðugleika í stjórnmálum á Íslandi, en viðurkennir að hún hafi verið farin að gæla við Ólafslausa Bessastaði.
Flestir aðrir forsetaframbjóðendur segjast enn sem komið er ætla að halda áfram, en Guðmundur Franklín Jónsson dró framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við Ólaf Ragnar.