Gerðar verða breytingar á læsisteymi Menntamálastofnunar í vor, eftir að fimm af níu ráðgjöfum teymisins sögðu upp störfum. Stofnunin réð í ágúst 2015 níu ráðgjafa sem áttu að vinna að innleiðingu aðgerða til eflingar læsis. Ráðgjafarnir tóku til starfa í október síðastliðnum, og átakið sem þeir hafa unnið að hófst í janúar. Verkefnið er hluti af aðgerðum í framhaldi af Hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra um umbætur í menntamálum og Þjóðarsáttmála um læsi.
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofunar, staðfestir að fimm af níu meðlimum teymisins muni láta af störfum í svari við fyrirspurn Kjarnans. Þar af hafi fjórir ákveðið að hverfa aftur til fyrri starfa eftir ársleyfi en muni áfram eiga samstarf við Menntamálastofnun á vettvangi sveitarfélaga. Ráðið verði í lausar stöður í teyminu á næstunni.
Arnór segir að verkefnið sé í meginatriðum á áætlun. Áherslur hafi undanfarið verið kynntar fyrir sveitarfélögum og skólum og ráðgjöf veitt á nokkrum stöðum. Grunnskólum hafi verið sendar upplýsingar um stöðu sína í lestri út frá fyrirliggjandi gögnum og verði þeim fylgt eftir með ráðgjöf næsta haust. Síðar á árinu verði grunnskólum jafnframt veittur aðgangur að nýjum stöðuprófum í læsi fyrir 1.-10. bekk. Stefnt sé að því að vefsíða með ráðgjöf og fræðsluefni verði opnuð næsta haust.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Anna Margrét Sigurðardóttir formaður Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, undirrituðu samning um gerð læsissáttmála fyrir foreldra og kynningarefnis í Áslandsskóla í Hafnarfirði 27. janúar 2016.
Með þjóðarsáttmálanum gerðu sveitarfélög og mennta- og menningarmálaráðherra ásamt fulltrúum Heimilis og skóla með sér samning um sameiginlegan skilning á því að læsi sé nauðsynlegt til virkrar þátttöku í samfélaginu þannig að hver og einn geti nýtt hæfileika sína sjálfum sér og samfélaginu öllu til velferðar. Einnig samþykktu samningsaðilar að þeir myndu vinna að því eftir fremsta megni að a.m.k. 90% nemenda í sveitarfélaginu gætu lesið sér til gagns árið 2018. Áhersla var lögð á samvinnu við foreldra og foreldrafélög til að ná markmiðum samningsins.
Framlag ráðuneytisins til samningsins var 14 milljónir króna. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2016 til ársloka 2016. Þetta kemur fram á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins.