„Eftir því sem þjóðarbúið og fjármálakerfið stendur sterkar því minni eru líkur á fjármagnsflótta. Að því leyti verða aðstæður til losunar fjármagnshafta vart betri en nú. Reyndar er orðið mjög brýnt að hefja losun gagnvart innlendum aðilum þar sem höftin valda vaxandi bjögun í þjóðarbúskapnum eins og birtist m.a. í gengishækkunarþrýstingi og hækkun eignaverðs. Þá er fjármagnsinnflæði hafið sem eykur enn á bjögunina og gerir losun fjármagnshafta brýnni en ella.“
Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í inngangi að Fjármálastöðugleika, sérriti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika í hagkerfinu, sem kom út í dag.
Fjármagnshöft hafa verið lögbundin frá því í nóvember 2008, þegar þeim var komið á til að stöðva stjórnlaust fall gengis krónunnar, eftir fall fjármálakerfisins, og koma stöðugleika á gengið.
Jafnframt segir í ritinu að helstu hindrunum fyrir losun fjármagnshafta hafi nú verið rutt úr vegi með lausninni sem komin er í málefni slitabúa föllnu bankanna. Flestir hagvísar vísi nú í rétta átt, og greina megi aukinn styrk heimila og fyrirtækja. Hagkerfið standi nú styrkum fótum, og forsendur fjármálastöðugleika þar með einnig. „Stærstu hindruninni fyrir almennri losun fjármagnshafta hefur því verið rutt úr vegi. Með því að uppfylla stöðugleikaskilyrði með framsali krónueigna búanna, umbreytingu gjaldeyrisinnlána þeirra í bankakerfinu í lengri lán og endurgreiðslu ríkisfyrirgreiðslu sem tengdist stofnun nýju bankanna, var greiðslujafnaðaráhættu af slitum búanna eytt. Aðgerðin hafði það í för með sér að hreinar erlendar skuldir þjóðbúsins lækkuðu um sem nemur fimmtung af landsframleiðslu. Skuldir ríkissjóðs munu einnig lækka verulega í framhaldinu. Þessi niðurstaða hefur þegar skilað sér í auknu trausti á Íslandi og hækkun lánshæfismats ríkissjóðs,“ segir Már í inngangi sínum.